Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Sumarfríið

Er ekki kominn tími til að blogga ?? Þó það sé orðið gamaldags! Sem mér finnst mjög leiðinlegt þar sem ég hef mjög gaman af því að lesa blogg. Bögg.

En já sumarið er rúmlega hálfnað. Sumarfríið mitt búið. Höfum það á hreinu að ég skipulagði ekki þennan sumarfrí tíma. Ég hefði aldrei byrjað sumarfrí í júní. Finnst það bara asnalegt, sumarfríið búið og ekki einu sinni kominn ágúst. Stupidó. En allavega. Ég fór til Reykjavíkur og var þar í eins og hálfa viku. Ég gerði ýmislegt og ekki neitt sem var æðislegt. Heimsótti vini, fjölskyldu, pínulítil börn (eitt ekki sólarhrings gamallt, lítil frænka sem hefur fengið nafnið Freyja Marý ;) og kaffihús bæjarins. Luvely. Ég flaug svo austur á fimmtudagsmorgni og keyrði norður á Akureyri seinna um daginn með Stefáni. Við vorum alla helgina á Akureyri á landsmóti UMFI. Á meðan ég var í Reykjavík var sól og 25 stiga hiti á Egilsstöðum...nánas allan tímann, sem gerði mig nett pirraða og frekar bitra. Það var ágætt veður í Rvk allan tímann sem ég var þar en aldrei svona bongó. Það var ágætis bongó þessa daga sem við vorum á Ak. Það laugardagskvöld fórum við á tónleika hjá hljómsveitinni Árstíðum og trúbadorunum Svavari Knút og Helga Val. Mjög skemmtilegt og mér finnst Árstíðir yndisleg hljómsveit. Stefán féll alveg fyrir þessum Helga. Hann er hvítur íslendingur sem finnur mikla samsvörun við svarta gettó menningu og spilar mikið svoleiðis tónlist. Hentar ágætlega í live flutningi en er ferlega kjánalegt á disknum sem Stefán keypti.

Á sunnudegi vorum við að drepa tímann. Fórum með nesti á svalirnar hjá Urði vinkonu Stefáns og manninum hennar. Sól og blíða þar. Við skelltum okkur á Safnasafnið sem var blanda af flottum listaverkum og kjánaskap. Gott að það var safnadagur svo við þurftum ekki að borga okkur inn. Kíktum líka í Laufás og til Grenivíkur (sem er kjánalega lítill staður...) Á mánudegi hittum við Finn vin hans Stefáns sem býr núna í Bandaríkjunum og kærustuna hans Amber. Við keyrðum saman til Húsavíkur og fórum í hvalaskoðun. Það var bara æðislegt og við sáum nokkra hnúfubaka, m.a. einn sem var að éta og kom með höfuðið upp úr sjónum mörgum sinnum, en gædinn á bátnum okkar hafði aldrei séð það áður (þá veit maður að maður er kominn í eitthvað djúsí;). Er mjög sátt við þá ferð en hefði verið best í heimi að sjá einhverja höfrunga líka :)  Við keyrðum áfram austur, skoðuðum Dimmuborgir og fórum í Jarðböðin við Mývatn. Mæli með að fólk fari þangað og borgi 2000 kall í staðin fyrir Bláa Lónið sem er farið að rukka 4000 kall fyrir baðið...shitt hvað er verið að okra á þeim bænum.

Þessa vikuna var mikið af góðu fólki á Austurlandinu góða. Elín og Eiríkur voru í sumarbústað á Eiðum og við fórum með þeim (og Finni og Amber) í smá rúnt um hálendið. Kíktum á Kárahnjúka og í Laugavalladal. Það er heit uppspretta og hægt að baða sig sem ég gerði að sjálfsögðu. Venjulegi baðstaðurinn var frekar ógeðslegur svo við fórum aðeins neðar þar sem var nokkurs konar sturta og smá pollur til að sitja í . Mjög hlýtt og hressandi. Að sjálfsögðu þurfti aðeins að leggjast í ána til að athuga hvort að hún væri ekki örugglega köld. Svo hituðum við kakó með Jetboilernum hans pabba....geggjað.

Helgina á eftir var ættarmót hjá móðurfjölskyldu Stefáns Boga. Sem þýddi að öll systkini hans, hluti af börnum og mamma hans komu austur. Rosa stuð og gaman að hitta fullt af fólki. Aðal stuðið á ættarmótinu var á laugardaginn og um kvöldið og þá tók ég upp á því að veikjast. Ég lá heima með flensu (venjulega...engin húsdýr á ferð) í fimm daga, sem þýddi það að ég missti af göngunni miklu um víknaslóðir, frá Seyðisfirði til Borgarfjarðar. Skítt.... Ég spilaði svo mikið bubble struggle í veikindunum að mig var farið að dreyma kúlur sem þurfti að skjóta niður...

 En fór á Bræðsluna og það var gaman. Egill Ólafsson er eitt það fyndnasta sem til er. Hann heldur að hann sé svo sniðugur og flottur en er í raun bara bullandi gúmmítöffari. Það var best þegar hann sveiflaði asnalega hvíta treflinum sínum (sem átti að vera sexí) í hringi og í nótnablöðin hjá fagottleikaranum þannig að hann fór alveg í panik og var heillengi að taka saman blöðin sín. Ég sá það ekki einu sinni en velltist um af hlátri aðallega vegna wannabe sexí múvanna hjá Agli. Merkilega uppblásinn maður. Á undan Þursaflokknum kom Jónas Sigurðsson sem ég hafði ekki hugmynd um hver var (er víst sólstrandargæi) en ferlega er tónlistin hans skemmtileg. www.jonassigurdsson.com

Já og Páll Óskar og Monika voru fyrst með sama prógramm og sögur og þau voru með í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði í fyrra.....nema að núna mátti maður syngja með...sem ég gerði af fullum hálsi :)

Á sunnudaginn eftir Bræðslu fór "gönguhópurinn" ásamt mér og Stefáni í Mjóafjörð í skoðunarferð. Ég bjó til piknik og við komum okkur fyrir við fallegan foss í firðinum og borðuðum vöfflur og heitt kakó. Ferlega skemmtilegt. Heitt kakó er svo gott í náttúrunni.  

Og núna er ég byrjuð aftur að vinna. Voða kósí vika þar sem börnin eru svo fá. Voða gaman bara. Fyrir utan það náttúrulega að ég vil vera ennþá í fríi. En allavega. Ég skrifaði eitthvað í sumar um tröppurnar okkar og að það þyrfti að brjóta þær niður fyrir hundruðir þúsunda. Þær eru í henglum núna en það þarf ekki að brjóta þær allar og kostnaðurinn enn sem komið er í hæfilegu magni, vonum að það haldist þannig. Verst að þá ákvað bíllinn að láta finna fyrir sér (ekki það við finnum alltaf fyrir þessu blessaða myntkörfuláni....það er að verða komið ár...á ekki að hjálpa manni neitt með þessar bévítans körfur...úps, datt aðeins út af sporinu þarna;)). Bíllinn er búinn að fara í viðgerð tvisvar núna í sumar, 60þús í hvort skiptið. Damn it damn it damn it. Vona að þessu skyndifjárútlát fari að hætta.  Af hverju vill skatturinn aldrei gefa mér peninga??? Alltaf þarf ég að borga honum. Það finnst mér ósanngjarnt.

Núna er að koma verslunarmannahelgi. Stefán er að fara á unglingalandsmót á Sauðárkróki. Ég veit ekki hvort að ég nenni. Spáin er svo blaut að ég held að ég kúri bara heima með prjónana mína. En stefnan er ekki tekin beint á Krókinn. Fyrst förum við á Borgarfjörð þar sem Stefán hefur verið beðinn um að taka þátt í hagyrðingamóti.  Hann er rosa spenntur. Vona að það verði gaman.

Þetta er sumarfríið mitt í hnotskurn...Heiða og Hugrún ætla að heimsækja mig í ágúst. Annars er ekkert planað. Bara gaman að vera til Wink


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband