16.3.2009 | 21:10
Laukur
Borg óttans var heimsótt þessa helgina sökum spurningafíknar unnustans. Ég bjóst við ömurlegu flugi fram og til baka þar sem veðrið var leiðinlegt. En það var bara fínt. Get sko ekki kvartað yfir því. Keppnin tapaðist eins og alþjóð veit en það er allt í lagi. Ég var í salnum og verð að viðurkenna að fordómar mínir í garð kópavogs liðsins rýrnuðu töluvert við það að sjá þá "live". Voru ekki eins leiðinlegir og hrokafullir og þeir virka í sjónvarpinu. Einhver stakk upp á því að það væri sökum þess að þeir væru ekki eins sigurvissir og þeir hafa verið undanfarið. Það getur svo sem vel verið, en þetta voru almennilegir strákar og litu ekkert sérstaklega stórt uppá sig í salnum. Ég hef heyrt einvherjar hugmyndir manna um að banna fyrrverandi gettu betur keppendum að taka þátt í Útsvarinu. Allt i lagi, en þá verða Stefán Bogi og Urður ekki með aftur.
Ég uppgötvaði eiginlega í fyrsta sinn núna um helgina hvað átt er við um hraðann í Reykjavík. Allavega í umferðinni. Ég keyri lítið hérna fyrir austan og mest innanbæjar og ekki er umferðin mjög þung á þessu svæði. Ég þurfti því smá stund til að venjast hraðanum aftur í borginni en það kom fljótt. Ég hef sagt að þegar ég verð svona "landsbyggðarkella" sem getur ekki keyrt í reykjavík...þá verður gripið til aðgerða, tek ekki í mál að væla yfir umferð í reykjavík...þó að hún sé í hnotskurn ömurleg
Við Stefán Bogi erum á hjónanámskeiði í kirkjunni. Afskaplega uppbyggilegt og gott námskeið. Í síðustu samveru var fjallað um ágreiningsmál og hvernig leysa á úr þeim. Ein spurningin í bókinn var um það hvort eða hvernig við notum t.d. þögn, kynlíf, hunsun o.s.frv. til að klekkja á eða refsa makanum ef við erum reið eða sár út í hann. Við Stefán komumst að því í sameiningu að við erum ekkert mikið að nota úthugsaðar aðferðir til að refsa hvort öðru. Þangað til í kvöld. Þá fattaði Stefán eina aðferð sem ég nota víst til að refsa honum. "Þú setur lauk í salatið mitt". Það passar. Hann þvoði ekki upp pönnuna eftir sig í dag !!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.