10.6.2009 | 19:47
Íslenska
Það er sól úti en ég er inni. Er alveg á leiðinni út að gera eitthvað en er svo södd að ég meika það ekki alveg strax. Ég sauð grjónagraut handa mér í kvöldmat. Í leikskólanum í dag var sago grjónagrautur. Hann er alveg eins á bragðið en þessi sago grjón eru svo mikill viðbjóður að ég hef ekki lyst á þeim graut. Svo ég geri bara minn eigin heima. Það eru voða margir hérna fyrir austan sem voru aldir upp við þennan graut og Stefán þykist kannast við hann líka. Ég hafði aldrei smakkað svona fyrr en hérna fyrir austan. Hvað með ykkur lesendur kærir ??
Vellti mér uppúr íslensku í dag. Ég hjó eftir því fljótlega eftir að við Stefán byrjuðum saman að hann fallbeygði nafn systur minnar þannig að hann sagði frá Hugrúni. Þetta fannst mér alveg hrikalega ljótt þar sem ég hef alltaf heyrt og sagt frá Hugrúnu. Ég rökstuddi þetta "u" með því að nafnið væri beygt eins og Guðrún o.þ.a.l. frá Guðrúnu og t.d. Heiðrúnu. Ég fór eitthvað að skoða þetta í dag út frá sömu pælingum um nafnið Róbert. Ég kíkti á netið og fann þar einhverja orðabók sem sýnir fallbeygingar íslenskra orða. Þar eru þessi orð beygð svona:
Nf. Hugrún Guðrún Heiðrún Róbert
Þf. Hugrúnu Guðrúnu/Guðrúni Heiðrúnu Róbert
Þgf. Hugrúnu Guðrúnu/Guðrúni Heiðrúnu Róbert/Róberti
Ef. Hugrúnar Guðrúnar Heiðrúnar Róberts
Ok, samkvæmt þessu er orðið í lagi að smella þessu "i" í staðin fyrri "u" í Guðrún. En af hverju er það þá ekki þannig í Hugrún og Heiðrún. Skil þetta ekki alveg. Ekki það mér finnst þetta "i" vera mjög ljótt og léleg íslenska (hef ekkert fyrir mér í því annað en að mér finnst það ljótt) og ætti ekki að vera "rétt". Eins finnst mér mjög skrítið að ef að nógu margir tala vitlausa íslensku þá verður hún á endanum rétt. Það er víst kallað þróun tungumáls. Ég fyrirgef svoleiðis stundum ef það koma ný tökuorð en mér finnst þetta kjánalegt með beygingar og orðaröð o.s.frv. En einum "tökufrasa" hef ég óbeit á. Það er frasinn "að meika sens". Upphaflega var þetta unglingamál og þá var nú bara töffaraskapur að segja þetta. En þegar fullorðið fólk, fréttamenn, kennarar og pólitíkusar fóru að nota þennan frasa þá fannst mér þetta vera hallærislegt. Ég hugsaði í margar vikur um hvað væri hægt að segja í staðin. Og það kom á endanum. "Það er ekkert vit í þessu". Mér finnst þetta góður íslendskur frasi sem segir það sama og sá útlenski. Hef notað hann í nokkur ár með góðum árangri
Vá farið að hljóma eins og ég sé einhver íslenskufræðingur. Ég sem er nýbúin að rífast við Stefán Boga um að ég megi alveg segja á Eyjólfsstöðum ef ég vil...hann vill segja "fara í Eyjólfsstaði". Ég er mjög léleg í *í/á/til *staðarnafn**.´
Ég byrjaði nú á því að skrifa þetta blogg í fýlu. Ég er í fýlu af því að ég keypti nýja íbúð og núna þarf að eyða hundruðum þúsunda í að brjóta niður tröppurnar hjá okkur og steypa nýjar. Eitthvað himpigimpi skrúfaði frá einhverjum vitlausum krana í haust og vatnið er búið að skemma tröppurnar okkar. Einhver kall er búinn að viðurkenna mistökin en sénsinn að það fáist einhver peningur úr því batteríi. Og tryggingar borga ekki krónu. AAAAARRG. Bíllinn á verkstæði og það fara alltaf tugir þúsunda í það. Erum nú þegar í mínus.....AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAARRRG. Er svo drullufúl út í heiminn núna.
20% niðurfellingu skulda NÚNA
Veit ekki með ykkur en það myndi bjarga mér. Ekki það við lifum þetta alveg af....lífið verður bara andskoti skítt á meðan.
Athugasemdir
Ég held að ástæðan sé einmitt akkúrat sú sem þú nefndir; um leið og nógu margir nota vitlausu orðmyndina, sbr. Guðrúni og Róberti þá er hún orðin "rétt". Þetta á sennilega eftir að gerast með Heiðrúnu og Hugrúnu í náinni framtíð, það heita bara ekki nógu margir þessum nöfnum!
Annars finnst mér ömurlegt að þú þurfir að punga út fyrir ónýtri stétt þar sem þetta er engan veginn þín sök!! Glatað!
Þjóðarblómið, 10.6.2009 kl. 20:51
Oj glatað með tröppurnar og bílinn.
Mér finnst þegar fólk segir Guðrúni það ljótasta í heimi.... hef alltaf verið á móti því. Sömuleiðis finnst mér eðlilegra að fara á Eyjólfsstaði, en ég er enginn íslenskufræðingur....
Guðrún , 11.6.2009 kl. 00:32
Leiðinlegt að heyra með stéttina, þegar maður kaupir eitthvað nýtt þá gerir maður ráð fyrir því að það sé í lagi!!! En ég held að það séu ansi margir í ruglinu núna með peningana sína (eða skort á þeim).
En ég hlakka til að koma í heimsókn til ykkar í sumar, þá getum við farið eitthvað saman (gert eitthvað sem kostar helst engan pening) og grillað og svona :) Við verðum líka með bát sem fylgir húsinu, kannski getum við veitt okkur fisk á grillið, á þessum síðustu og verstu :) !!!!
Elín (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.