Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
19.1.2010 | 16:35
Lengsta bloggfærsla í heimi...des09-jan10
Smá jólafrásögn :)
Við Stefán keyrðum suður laugardaginn fyrir jól. Við lögðum snemma af stað og héldum að við værum rosalega sniðug og myndum keyra út úr óveðrinu sem var spáð á austurlandi. Well...almost. Við fengum fínt veður í Fagradalnum, rok að Berufirði og svo töluvert mikið rok í Berufirði og alla leið á Höfn. Þá hélt ég að við værum sloppin úr mesta rokinu. En nei nei. Þá tók við versti kaflinn. Það er nokkra kílómetra kafli þar sem maður keyrir í "auðn". Svolítið frá öllum fjöllum en ég held að þetta sé ekki neinn sandur...eða já kannski var það sandur. En allavega, þegar maður horfði "upp landið" þá sá maður að fjöllin mynduðu langan dal sem endaði lengst uppi á jökli. Þannig að landslagið virkaði eins trekt og allir vindar Vatnajökuls tróðust þarna niður og reyndu af öllum mætti að blása okkur út af veginum. Ef það hefði verið vottur af hálku þá hefðum við flogið útaf. En sem betur fer var vegurinn auður og við höfðum þetta nú af. Veðrið skánaði mikið eftir þennan sand og við komumst til Reykjavíkur.
Hugrún var búin að biðja mig um að koma suður með pasta sem var til á Egilsstöðum en hún hafði ekki fundið lengi í rvk. Ég var búin að kaupa pasta fyrir tæpar 4000 krónur. Pastað var í poka sem átti að fara út í bíl. Þegar við komum á Vesturgötuna og búin að fara með allt dótið inn þá ætlaði ég að fara og finna pastað fyrir Hugrúnu. Pokinn hafði ekki komið inn og Stefán (sem raðaði í bílinn og kom inn með allt úr skottinu) mundi ekkert eftir neinum poka. Êg spurði hann hvort að hann hefði nokkuð hent pokanum ! Það gat vel verið sagði hann. Þannig að ég hringdi í nágranna/samstarfskonu mína og bað hana (eða manninn hennar sem er frændi Stefáns) um að athuga í ruslið (ég meina fjögurþúsund kall af pasta !). Frétti að hann hefði gert það og ætlaði að fara að gramsa aðeins í ruslinu okkar þegar nágrannakona okkar kom út til að reykja og þá kunni hann ekki við að gramsa ;) En ég fann pastapokann í skottinu á bílnum stuttu seinna þegar ég ákvað að treysta Stefáni ekki og athuga einu sinni enn í bílinn. En góðir nágrannar ;)
Dagarnir fyrir jól fóru aðallega í það að kaupa jólagjafir og það sem vantaði fyrir brúðkaupið. Einnig að sækja kjólinn, fara í prufugreiðslu, förðun og allt það. Nóg að gera. Svo átti ég afmæli þarna einhverstaðar. Orðin 27 ára kelling. Held að það verði mjög gaman að vera 27. Mun skemmtilegra en að vera 26. Finn það á mér, verður jafn gaman ef ekki skemmtilegra en að vera 25 ! Og það er sko mikið ;) Það lofar bara svo góðu að vera 27. Það er sem á planinu er að gifta sig og eignast barn...verður ekki mikið merkilegra :)
Allavega. Jólin voru afskaplega hugguleg. Við vorum á Vesturgötunni og höfðum það afskaplega huggulegt. VIð fengum fínar gjafir. Meðal annars þrjár bækur (eina meðgöngubók sem Stefán las...duglegur), ég fékk slopp, prjónasett, tösku, tösku og myndir eftir Heiðu. Jólin fóru svo í át, lestur, sof og undirbúning fyrir brúðkaup ársins ;) Annan í jólum vöknuðum við snemma til að fara á æfingu í Dómkirkjunni. Æfingin gekk vel og við fengum leyfi til að gifta okkur. Þegar við yfirgáfum kirkjuna birtust vinir Stefáns einn af öðrum. Þeir rændu honum og steggjuðu hann á yfirvegaðann og virðulegan hátt.
Á meðan Stefán var steggjaður fór ég með her fólks í salinn í Háteigskirkju og skreytti salinn. Það gekk voða vel. Litlu eplin voru krúttleg og jólaskrautið sem Daddi frændi reddaði var æðislegt. Og svo auðvitað Georg...(Georg Jensen aðventukransinn minn :) Fullt af kertum og krúttlegheitum.
Brúðkaupsdagurinn var svo alveg yndislegur. Ég vaknaði, fór í sturtu, í hárgreiðslu, förðun og var svo reimuð í kjólinn. Við rúntuðum um bæinn og þegar klukkan var orðin mættum við í kirjuna. Ég var ekkert stressuð fyrir neinu en fæturnir mínir fóru að virka eitthvað kjánalega þegar ég gekk inn kirkjugólfið. Held að það hafi verið gólfið ;) Allavega, ég táraðist ekkert af því að ég var svo upptekin við að fljúga ekki á hausinn og brosa ekki eins og fífl :) En ég komst alla leið og í stólinn minn án vandræða. Athöfnin var falleg. Yndislegur prestur, fallegur söngur, fallegur píanóleikur, fallegir ljósmyndarar ;) og allt saman. Bjútífúl. Ég var mest stressuð yfir því að koma ekki hringnum á mig af því að að var búið að hræða mig með því að ég fengi bjúg af öllum jólamatnum. Það var ekki vandamál, hendurnar mínar voru fínar. Ég hélt samt í smá stund að ég væri að giftast líki þegar ég tók í höndina á Stefáni. Hef aldrei haldið í svona kalda hönd áður ... einhver smá stressaður !! ;)
Veislan var líka alveg mögnuð. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri svona gaman að gifta sig ! Fullt af fólki sem okkur þykir vænt um, allir voða glaðir og kátir. Við höfðum áhyggjur af því að það yrðu engin skemmtiatriði, að við ættum ekki nógu hugrakka vini og fjölskyldu. En það var nú meiri vitleysan. Það var svo mikil dagskrá að við höfðum varla tíma til að heilsa uppá alla gestina. En ég vona allavega að allir hafi skemmt sér vel. Maturinn var ágætur. Mér fannst súpan of sölt en Stefáni fannst hún góð :) Ískakan var samt best.... En þetta var samt allt bara æðislegt.
Við vorum í tvær nætur á Hótel Sögu og það var rosalega kósí. Ég var svo upptekin af því að hafa brúðkaupsdaginn vel skipulagðan og flottan að ég gleymdi helmingnum af því sem ég ætlaði að taka með mér á hótelið. Mig vantaði skó, yfirhöfn, tannbursta, hárbursta og eitthvað meira. Soldið kjánalegt. Mánudagurinn var svo alveg jafn yndislegur og sunnudagurinn. Við fengum morgunmat í rúmið og fórum svo í 20v sónar uppá landsspítala. Þar kíktum við í stæðsta pakkann og fengum að vita að allt væri í lagi í bumbunni minni og að það væri líklegast lítil stúlka að dafna þar. Svo fórum við að opna alla hina pakkana. Það var rosa gaman :) Við fengum svo mikið af fallegum gjöfum. Stefán var eiginlega í smá sjokku eftir að við vorum búin að opna alla pakkana. Við fengum myndir, hrærivél, skálar og diska í stellið sem ég valdi, rosendahl skálar, bakka og hnífapör, hnífaparatösku, vog, pönnu, Eva Solo tekönnu og kælikönnu, kökudiska og ég veit ekki hvað og hvað. Ferlega flott allt saman. Við fengum líka peninga og gjafakort og notuðum það meðal annars til að kaupa okkur þrjár góðar ferðatöskur. Mjög skynsamlega valið að mínu mati.
Áramótin okkar voru ansi fjölbreytt. Við fórum í mat til tengdó, eftirmat og skaup hjá systkinum Stefáns og svo sprengjur og áramótin sjálf á Vesturgötunni. Verð að viðurkenna að mér leiðast svona áramót. Ég vil hitta alla og vil ekki þurfa að velja á milli, en vá hvað það er miklu meira kósí að vera á einum stað. En vesenið var svosem mér og mínum að kenna fyrst þau þurftu að vera með svona "risapartý" :)
Við lögðum af stað aftur austur sunnudaginn 3.jan. Þá keyrðum við á Akureyri og gistum þar í eina nótt hjá Urði, Ragnari og Árvöku. Þau voru svo yndisleg að leyfa okkur að gista eina nótt þar sem ég fór í smá aðgerð á fætinum á mánudagsmorgni. Þetta átti upphaflega að vera lítil aðgerð, smá svæfing og farin heim tveim tímum eftir komu. En þar sem ég er ekki kona einsömul þá mátti ekki svæfa mig. Læknirinn talaði alltaf um staðdeyfingu. Ég hélt að ég myndi þá mæta á sjúkrahúsið, lyfta upp skálminni, fá sprautu og vera svo skorin. Umm nei... Mín var bara sett í mænudeyfingu. Spítalaföt, næring í æð, dauð fyrir neðan mitti og allur pakkinn. Og þar fyrir 20 mín aðgerð. Soldið ýkt. Og vá hvað þetta er óþægileg deyfing. Alveg dauð og gat ekki fyrir mitt litla líf hreyft mig eða fundið neitt fyrir neðan brjóstin. Vá hvað mér fannst þetta óþægilegt. Og ég var fjóra tíma á vöknun að bíða eftir að fá fullan mátt í fæturna. En hvað gerir maður ekki til að litlu skrítlunni líði sem best í bumbunni. Já og það sem var skorið og tekið úr mér var eitthvað bandvefsþykkildi sem var í taugaslíðrinu. Góðkynja og ætti ekki að vera til vandræða aftur.
Og ég er loksins farin að finna fyrir litla lífinu í bumbunni. Fôr að finna smá hreyfingar þegar ég var komin 20v og er farin að finna fyrir þeim á hverjum degi núna (komin 23v). Það er voða gaman. Stefán fann meira að segja eitt gott spart í fyrradag. Annars er þetta ekki svo kraftmikið að maður finni alltaf að utan, enda vel fóðrað :) Ég var að þrífa á laugardaginn og byrjaði að ryksuga. Stoppaði í smá stund til að kíkja á sjónvarpið. Litlan mín sparkaði og sparkaði á meðan ég sat og hrofði. Ég held að hún hafi verið að segja mér að slaka á og láta Stefán ryksuga...Stefán segir að hún hafi verið að sparka mér áfram... túlkunaratriði :)
Jæja læt þetta nægja, held að ég sé komin með lengstu bloggfærslu ever...enda mikið um að vera :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)