Laugardagur til lukku

Fór í miðbæinn áðan. Sat á kaffihúsinu hjá Máli og menningu og las slúður og leiðbeiningar Cosmo um betra kynlíf. Þær leiðbeiningar eru alltaf eins, bara með mismunandi myndum og öðruvísi orðuðum texta. Það var langur laugardagur og allt í einu voru komin einsöngvarakona og píanóleikari að flytja tónlist fyrir gesti og gangandi. Við fyrsta lagið fékk ég hrikalega gæsahúð þar sem þetta var Ave María eftir Sigurð Bragason. Sigurður þessi var kórstrjóri minn þetta eina ár sem ég var í Kvennaskólakórnum. Við gáfum út geisladisk sem innihélt meðal annars þetta lag. Gífurlega fallegt. Ég hef nú samt viljað gleyma þessu ári mínu í  þessum kór, ekki af því að þetta var svo hræðilegur kór eða neitt þannig. Ég var bara í fyrsta bekk í menntaskóla og asnaleg eftir því. Var að byrja að finna sjálfa mig (ekki það að ég sé alveg fundin) og fatasmekkurinn var eftir því hræðilegur. Skondið ár.

Ég labbaði sem leið lá uppá Vesturgötu. Það var rigning í hádeginu en þegar ég var að labba var komin sól. Æðislegt að ganga um miðbæinn í svona veðri og gaman að því hvað það er alltaf mikið af fólki sem er að þvælast í bænum. Á öðrum hverjum bekk sat róni. Sumir í snjógöllum, aðrir ekki., sumir með rænu, aðrir ekki. Framhjá mér gengu nokkrir hópar af fullorðnum karlmönnum af erlendu bergi brotnir og allir voru þeir með bjór í annarri og poka úr ríkinu í hinni. Klukkan var fjögur. Þegar ég kom á Ingólfstorg gekk ég framhjá ólíkum hópum af fólki. Mótorhjólamenn stóðu á sínum stað og spjölluðu. Brettakrakkarnir þvældust um á brettunum sínum. Eitthvað var um fjölskyldufólk á torginu, börn léku sér í vatninu sem seytlar þarna um en meira var af drukknum útlendingum og á öllum bekkjum sátu rammíslenskir rónar. Lalli Johns bauð mér góðan daginn þegar ég gekk framhjá honum á einum bekknum. Sá ekki konuna í snjógallanum sem ég hef séð síðustu skipti sem ég hef farið í bæinn en síðast stóð hún á lækjatorgi og bað fólk um peninga en þar á undan sat hún á bekk á sama torgi með vin sinn "dauðann" í fanginu.

Það er eitt og annað sem ég á eftir að sakna frá miðbæ Reykjavíkur. Annað græt ég ekki !

Þegar ég kom upp á Vesturgötu var Fernando Torres í heimsókn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

rawrg! (hint)

Heiða (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband