Flutt !!

Jæja, komin í smá siðmenningu á Egilsstöðum. Var að hugsa um að fara á bókasafnið til að kíkja á netið en mundi þá skyndilega að það er smá nettenging hérna á kaffi Valný. Finnst miklu skemmtilegra að sitja með latte bolla og tölvuna mína heldur en að hanga í einhverri almenningstölvu. Plús það þá er þetta miklu meira kúl Cool Er reyndar hrædd um að færslan týnist þar sem tengingin er frekar hæg miðað við það sem maður er vanur...en vona að þetta hverfi nú ekki allt. Heiða heldur því fram að þetta sé frumstæð tenging, held frekar að það séu margir að nota hana. Það er alveg alvöru net á Egilsstöðum.

Ég er semsagt flutt austur. Flutningarnir gengu vel. Ofurhress bílstjóri kom og keyrði dótið okkar austur. Ég fékk her manna til að hjálpa okkur að koma dótinu í bílinn og þrífa litla kjallarann. Bíllinn sem flutti fyrir okkur var bíll plús kerra og við fengum kerruna undir okkar dót. Hún var skilin eftir í lundahólunum á meðan bíllinn fór í grafarholtið til að ná í búslóðina hjá Hlín og Þorgeiri. Pabbi og Biggi, mágur Stefáns, röðuðu í kerruna eins og þeir hefðu aldrei gert annað. Þeir voru eins og í eigin heimi í því að raða og ég er nokkuð viss um að það hefði ekki verið hægt að raða þessu betur. Mamma kom svo með mér í bílnum austur og pabbi kom fljúgandi um kvöldið. Þau voru hjá okkur um helgina og voru mikil hjálp. Pabbi hengdi upp og setti saman flest það sem átti að fara saman og mamma raðaði upp eldhúsinu hjá mér. Núna er eldhúsið mitt voða mömmulegt Wink Við pabbi settum svo saman bókaskáp sem ég keypti áður en við fórum austur. Við eigum tvo skápa sem eru ekki eins á litin af því að annar er keyptur í ikea en hinn einhverstaðar annars staðar. Litamunurinn er samt mjög lítill. Ég fór því ekki í ikea í þetta skiptið heldur í hirzluna til að kaupa nýjan skáp (hélt að hinn skápurinn hefði verið keyptur þar). Það kemur svo í ljós þegar við erum búin að setja skápinn saman að hann er í allt öðrum lit en hinir tveir...þessi nýi er miklu dekkri þannig að núna er ég með þrjá mismunandi liti á bókaskápunum mínum. Damn þetta var pirrandi af því að ég hélt að ég væri svo klár að kaupa sama lit. Þetta er samt frekar fyndið...

Kústur hagaði sér mjög vel í bílferðinni austur. Hann byrjaði að væla en hætti svo og lagði sig. Vaknaði eftir ca hálftíma, vældi smá og lagði sig svo. Þetta gerði hann alla ferðina. Svaf en minnti svo aðeins á sig á ca. hálftíma fresti. Á Akureyri ákvað ég að hleypa honum aðeins út til að teygja úr sér. Var með hann í bandi. Hann var ekki alveg að fatta það og ég efast um að hann hafi haft nokkuð gott af því að viðra sig svona. Hann var úti í svona 10 mínútur og mamma hló að mér mest allan tíman. Enda hálf asnaleg bæði tvö, ég með kött í bandi og kötturinn dauðskellkaður í bandi á bílstæði á Akureyri. Stupid really. Kústur virðist nú vera missáttur við að vera fluttur. Fær ekkert að fara út nema aðeins á svalirnar og má ekki lengur kúra í rúmminu okkar (erum nefninlega komin með svo fancy rúmteppi!) Hann er því búinn að hertaka svefnsófann (viðeigandi). Hann var svo áttavilltur greyið þegar hann kom að hann reyndi að skíta í fatahrúguna hans Stefáns. Mér tókst þó að koma í veg fyrir það og benda honum á sandinn sinn. Hann hefur þó verið að æla aðeins en ég er að vona að hann fari að hætta því. Frekar leiðinlegt og ógeðslegt. Er ný búinn í ormahreinsun þannig að ég vona að það sé ekki það sem er að angra hann. Ætli ég reyni ekki að halda honum inni en um sinn áður en ég sleppi honum lausum í skóginn Blush

Ég hef ekki mikið gert í íbúðinni síðan mamma og pabbi fóru. Stefán fékk mig til að sjá um eldamennsku í frjálsíþróttaskóla sem ÚÍA er með og það hefur tekið töluverðan tíma. Svo er ég líka búin að fara aðeins í leikskólann sem ég verð að vinna í til að sjá hvað ég verð að gera og aðeins að sjá krakkana sem ég verð að vinna með. Lofar góðu og ég held að ég verði ekkert SVO mikið úti á túni. Bara spennandi. Ég fer þó að verða leið á að stika í kringum kassa þannig að ég reyni örugglega að koma þeim frá á næstu dögum. Þá get ég líka farið að setja inn myndir. Ekkert gaman að sjá myndir af kössum. Þið verðið bara að bíða eftir að ég nenni að ganga frá til að sjá hvað íbúðin mín er flott (sem hún er). Ég er rosa ánægð með hana og veit að það verður gott að búa í henni.

Ég er líka búin að vera menningarleg í þennan stutta tíma minn hérna fyrir austan. Fór á miðvikudaginn á tónleika í Bláu Kirkjunni á Seyðisfirði með Páli Óskari og Monicu. Það var æði. Við Stefán ræddum það áður en Palli kom fram um það hvort hann yrði í hvítu jakkafötunum eða í glimmer/pallíettu galla. Hann var í hvítum pallíettu fötum. Það var æði. Við keyrðum aðeins um Seyðisfjörð eftir tónleikana og fundum gamlan bekkjarbróður Stefáns úti á palli með kærustu sinni og systur. Stoppuðum þar í smá stund og komumst að því að Svavar Knútur (úr Hraun) væri að koma kvöldið eftir til að trúbadorast á Hótel Öldunni á Seyðisfirði ásamt áströlskum trúbador. Þeir eru einmitt með eitthvað alþjóðlegt trúbador conspiracy í gangi. Ég ákvað á staðnum að ég ætlaði aftur á Seyðisfjörð daginn eftir. Stefáni leyst eitthvað illa á að ég væri ein á báti (þar sem hann var að stinga af til Reykjavíkur) þannig að hann fékk þetta fólk til að ættleiða mig. Þau semsagt sátu á borðinu hjá mér í gær. Ohhh þetta var svo æðislegt kvöld. Þeir sungu og sögðu sögur og þetta var svo skemmtilegt. Svo sat ég við gluggan og gat horft á þokuna leysast upp og fjöllin koma í ljós og fjúffenheimer þetta var svo fallegt. Yndislegt kvöld. Keyrði svo heim í þokunni klukkan hálf þrjú þar sem mér var boðið í smá eftir tónleikahitting með "fólkinu" og tónlistarmönnunum. Gaman gaman.

En já þetta er semsagt það sem ég hef verið að bauka á Egilsstöðum. Vá orðið langt...til hamingju þeir sem nenntu að lesa svona langt. Spurning hvenar ég blogga næst...kannski heima hjá mér !!! Hver veit Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ

Gaman að heyra frá þér, ég er fegin að þér líst vel á þetta og að allt gengur vel. Þetta var svo löng færsla að þér er alveg fyrirgefið fyrir að bíða svona lengi með að segja okkur fréttir :)

Kveðja úr Njarðvíkinni.

Elín (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 10:26

2 Smámynd: Tinna Rós Steinsdóttir

Ég nennti, ég nennti! :)

Frábært að það gengur allt svona vel hjá ykkur og ykkur líður svona vel. Efast um að ég eigi nokkurn tíman eftir að koma í heimsókn til ykkar þar sem ég hef aldrei farið til Egilstaða...og efast um að þar muni verða breyting á á næstunni. En ef ég á leið um kem ég klárlega í heimsókn...hehe :)

Tinna Rós Steinsdóttir, 15.7.2008 kl. 09:45

3 Smámynd: Lutheran Dude

Heyrðu Tinna þú kemur bara klárlega í heimsókn til okkar beggja. Egilsstaðir eru æði, bara kúl!

Lutheran Dude, 15.7.2008 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband