4.5.2009 | 00:50
Sauðburður
Jæja þá er þessi laaaanga helgi að verða búin. Mér finnst þessi helgi hafa verið síðan á fimmtudag af því að þá byrjaði blakmótið og við vorum í sveitinni langt fram á nótt. Blakmótið var öldungamót 2009. Maður þarf að vera þrítugur á árinu til þess að taka þátt í því svo að ekki fengum við að vera með. En við máttum hjálpa til. Við Stefán sáum um það að skrásetja úrslit leikjanna í þar til gert forrit á netinu. Very important mál. Við vorum semsagt í íþróttahúsinu frá fimmtudegi til laugardags. Það var ágætt. Gaman að fylgjast með og fá að vera aðeins með. Ég fór svo á lokahófið á laugardeginum sem var á seyðisfirði. Ætlaði reyndar ekkert að fara en svo var mér boðið svo fallega að ég ákvað að skella mér. Það var alveg stórfínt. Ein mynd af hófinu...sem var með ´80 þema.
Við erum búin að fara nokkrum sinnum í sveitina og ég er loksins búin að sjá lamb fæðast. Við fórum á sunnudaginn og þá sá ég ekki neitt. Kindurnar voru alltaf nýbúnar að bera þegar ég kom. Þann daginn fékk ég bara að sjá hvernig móðurlíf og skeifugörn lítur út. Ein rollar var eitthvað rugluð í anatomiunni og skeifugörnin var að troðast út um afturendann á henni og móðurlífið kom út um fæðingarveginn. Þeirri rollu var lógað. Við fórum aftur á þriðjudaginn og þá fékk ég loksins að sjá lamb bera fallega og eðlilega. Þá koma út tveir fætur, einn haus og svo rest. Tvisvar sinnum var ég að skoða rollurnar og sá bara haus "horfa á mig" út um bakhluta kindar. Þar sat hann fastur (það voru semsagt haus og einn fótur). Þá hljóp ég fram og náði í Völu bóndadóttur..."Vala ég sé bara einn haus og einn fót...það er eitthvað vitlaust". Þá kom vana manneskjan hlaupandi og tróð hendini á sér inn um fæðingarveginn, fann hinn fótinn og dró lambið út. Spes.
Á fimmtudaginn skelltum við okkur í sveitina og vorum fram á nótt. Þá vorum við með eina kind í skigtinu sem var búin að bera einu lambi. Það er nú algengast að þær séu tvílembdar svo við biðum eftir næsta. Ekkert gerðist. Mér fannst hún svo magamikil að ég var viss um að það væri annað lamb. Á endanum ákvað ég að fara til hennar og káfa aðeins á henni, athuga hvort að ég fyndi fyrir öðru lambi í kviðnum á henni. Ég náði henni og þreyfaði. Ég gat ýtt (ekki fast samt) "kúlunni" á henni inn...hún var bara svona eins og blaðra. Mundi það svo að ég hef ekkert káfað á rollubumbum með lambi svo ég vissi ekkert hvað ég ætti að finna. Þá fór ég og fann mér rollu sem var ekki búin að bera. Þessi sem ég fann lá á gólfinu og var orðin svo mikil um sig að ég held að hún hafi ekki nennt að standa upp þegar ég kom. Þannig að ég gat káfað á henni. Þar var sko ekki hægt að ýta neinu inn... Þannig að ég kvað upp minn dóm...að þessi rolla væri einlembd. Fór til Ingibjargar bóndakonu og sagði henni frá niðurstöðum mínum. "Já helduru að hún sé bara með eitt...fórstu inn í hana ?" Já nei....það datt mér nú ekki í hug...
Kindur eru stórmerkileg fyrirbæri. Á haustinn eru þau fjandanum klárari að komast undan manni þegar maður er að reyna að reka/smala. Svo þegar þær eru búnar að bera verða þær skyndilega fjandanum vitlausari ! Týna lömbunum sínum, stela frá öðrum, neita að eiga þau o.s.frv.o.s.frv. Vinnan felst stundum í því að passa að öll lömbin séu á réttum stað og hjá réttri rollu. Meiri vitleysingarnir...
Smá myndir af ævintýrunum í sveitinni
Þessu lambi leið best í körfu....veit ekki af hverju
Halló...við erum rosalega óléttar og nennum ekki að standa upp !!! Nokkurs konar fæðingargangur
Einhver aðeins að misskilja !!
Fann mér eitt svart lamb til að pósa með
Þetta lamb heitir í mínum huga jókerinn. Það er alveg eins og jókerinn í batman !!
Ný kominn í heiminn. Sum lömbin eru með svona gult slím utanum sig þegar þau fæðast. "kjöt í karrý" sagði Bóndinn og glotti....
Oh við erum svo dugleg. Það hafa fæðst mörg svona mögótt lömb á Hrafnabjörgum núna (eins og Stefán heldur á). Bændunum hér þykja þau ljót á litin en mér finnst þau ferlega flott og verð hálf móðguð þegar þau dæsa yfir þessum dúllum. En ullin er víst verðminni þegar hún er svona !!
Og þetta er svo hún Baldursbrá. Hún er þriggjavetra meri sem Jónas fékk sem borgun fyrir heyrúllu. Hún er ótamin ágætlega gæf. Hún er eina hrossið sem er á Hrafnabjörgum. Þau eru ekki mikið fyrir hesta. Vilja helst hafa þá í tunnu ! Skil ekki svona. En það þurfti semsagt að ferja hana á milli húsa í dag. Það var ekki það auðveldasta. Hún vildi að sjálsögðu ekki láta ná sér. Það var kallað á mig þar sem ég var eina "hestamanneskjan" á svæðinu. Ég er nú reyndar vanari tömdum hrossum en hvað um það. Við náðum henni á endanum í svona múl eftir smá stapp. Merkilegt að enginn hafi slasað sig á meðan því stóð þar sem hún prjónaði tvisvar þrisvar. En ég náði að setja múlinn á hana EN HÚN BEIT MIG Í BRJÓSTIÐ Á MEÐAN! Ég hef bara aldrei áður lent í því að vera bitin af hesti og var hreinlega búin að gleyma því að það gæti gerst. Var svona meira að passa mig á því að fá ekki hóf í hausinn. En ég er semsagt með smá bitfar og mar á brjóstinu eftir hana Baldursbrá. Við Stefán ferjuðum hana svo niður í önnur hús. Það gekk stórvel miðað við það að hún vildi ekki fara niður brekkur, ekki yfir girðingu, snjó eða læk. En það hafðist
Athugasemdir
Sammála með litinn á lömbunum - þau eru miklu skemmtilegri "í lit". En ái..... að vera bitinn af hrossi................
Mamma (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 08:47
Heiðdís, þú ert snillingur :)
Rataði hingað inn af fésbókinni. Yndislegt að lesa það sem þú skrifar. Nú fer ég að kíkja reglulega ;)
Hrönn (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 11:12
Bara að kvitta fyrir komuna :)
Elín (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 09:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.