Sumarfríið

Er ekki kominn tími til að blogga ?? Þó það sé orðið gamaldags! Sem mér finnst mjög leiðinlegt þar sem ég hef mjög gaman af því að lesa blogg. Bögg.

En já sumarið er rúmlega hálfnað. Sumarfríið mitt búið. Höfum það á hreinu að ég skipulagði ekki þennan sumarfrí tíma. Ég hefði aldrei byrjað sumarfrí í júní. Finnst það bara asnalegt, sumarfríið búið og ekki einu sinni kominn ágúst. Stupidó. En allavega. Ég fór til Reykjavíkur og var þar í eins og hálfa viku. Ég gerði ýmislegt og ekki neitt sem var æðislegt. Heimsótti vini, fjölskyldu, pínulítil börn (eitt ekki sólarhrings gamallt, lítil frænka sem hefur fengið nafnið Freyja Marý ;) og kaffihús bæjarins. Luvely. Ég flaug svo austur á fimmtudagsmorgni og keyrði norður á Akureyri seinna um daginn með Stefáni. Við vorum alla helgina á Akureyri á landsmóti UMFI. Á meðan ég var í Reykjavík var sól og 25 stiga hiti á Egilsstöðum...nánas allan tímann, sem gerði mig nett pirraða og frekar bitra. Það var ágætt veður í Rvk allan tímann sem ég var þar en aldrei svona bongó. Það var ágætis bongó þessa daga sem við vorum á Ak. Það laugardagskvöld fórum við á tónleika hjá hljómsveitinni Árstíðum og trúbadorunum Svavari Knút og Helga Val. Mjög skemmtilegt og mér finnst Árstíðir yndisleg hljómsveit. Stefán féll alveg fyrir þessum Helga. Hann er hvítur íslendingur sem finnur mikla samsvörun við svarta gettó menningu og spilar mikið svoleiðis tónlist. Hentar ágætlega í live flutningi en er ferlega kjánalegt á disknum sem Stefán keypti.

Á sunnudegi vorum við að drepa tímann. Fórum með nesti á svalirnar hjá Urði vinkonu Stefáns og manninum hennar. Sól og blíða þar. Við skelltum okkur á Safnasafnið sem var blanda af flottum listaverkum og kjánaskap. Gott að það var safnadagur svo við þurftum ekki að borga okkur inn. Kíktum líka í Laufás og til Grenivíkur (sem er kjánalega lítill staður...) Á mánudegi hittum við Finn vin hans Stefáns sem býr núna í Bandaríkjunum og kærustuna hans Amber. Við keyrðum saman til Húsavíkur og fórum í hvalaskoðun. Það var bara æðislegt og við sáum nokkra hnúfubaka, m.a. einn sem var að éta og kom með höfuðið upp úr sjónum mörgum sinnum, en gædinn á bátnum okkar hafði aldrei séð það áður (þá veit maður að maður er kominn í eitthvað djúsí;). Er mjög sátt við þá ferð en hefði verið best í heimi að sjá einhverja höfrunga líka :)  Við keyrðum áfram austur, skoðuðum Dimmuborgir og fórum í Jarðböðin við Mývatn. Mæli með að fólk fari þangað og borgi 2000 kall í staðin fyrir Bláa Lónið sem er farið að rukka 4000 kall fyrir baðið...shitt hvað er verið að okra á þeim bænum.

Þessa vikuna var mikið af góðu fólki á Austurlandinu góða. Elín og Eiríkur voru í sumarbústað á Eiðum og við fórum með þeim (og Finni og Amber) í smá rúnt um hálendið. Kíktum á Kárahnjúka og í Laugavalladal. Það er heit uppspretta og hægt að baða sig sem ég gerði að sjálfsögðu. Venjulegi baðstaðurinn var frekar ógeðslegur svo við fórum aðeins neðar þar sem var nokkurs konar sturta og smá pollur til að sitja í . Mjög hlýtt og hressandi. Að sjálfsögðu þurfti aðeins að leggjast í ána til að athuga hvort að hún væri ekki örugglega köld. Svo hituðum við kakó með Jetboilernum hans pabba....geggjað.

Helgina á eftir var ættarmót hjá móðurfjölskyldu Stefáns Boga. Sem þýddi að öll systkini hans, hluti af börnum og mamma hans komu austur. Rosa stuð og gaman að hitta fullt af fólki. Aðal stuðið á ættarmótinu var á laugardaginn og um kvöldið og þá tók ég upp á því að veikjast. Ég lá heima með flensu (venjulega...engin húsdýr á ferð) í fimm daga, sem þýddi það að ég missti af göngunni miklu um víknaslóðir, frá Seyðisfirði til Borgarfjarðar. Skítt.... Ég spilaði svo mikið bubble struggle í veikindunum að mig var farið að dreyma kúlur sem þurfti að skjóta niður...

 En fór á Bræðsluna og það var gaman. Egill Ólafsson er eitt það fyndnasta sem til er. Hann heldur að hann sé svo sniðugur og flottur en er í raun bara bullandi gúmmítöffari. Það var best þegar hann sveiflaði asnalega hvíta treflinum sínum (sem átti að vera sexí) í hringi og í nótnablöðin hjá fagottleikaranum þannig að hann fór alveg í panik og var heillengi að taka saman blöðin sín. Ég sá það ekki einu sinni en velltist um af hlátri aðallega vegna wannabe sexí múvanna hjá Agli. Merkilega uppblásinn maður. Á undan Þursaflokknum kom Jónas Sigurðsson sem ég hafði ekki hugmynd um hver var (er víst sólstrandargæi) en ferlega er tónlistin hans skemmtileg. www.jonassigurdsson.com

Já og Páll Óskar og Monika voru fyrst með sama prógramm og sögur og þau voru með í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði í fyrra.....nema að núna mátti maður syngja með...sem ég gerði af fullum hálsi :)

Á sunnudaginn eftir Bræðslu fór "gönguhópurinn" ásamt mér og Stefáni í Mjóafjörð í skoðunarferð. Ég bjó til piknik og við komum okkur fyrir við fallegan foss í firðinum og borðuðum vöfflur og heitt kakó. Ferlega skemmtilegt. Heitt kakó er svo gott í náttúrunni.  

Og núna er ég byrjuð aftur að vinna. Voða kósí vika þar sem börnin eru svo fá. Voða gaman bara. Fyrir utan það náttúrulega að ég vil vera ennþá í fríi. En allavega. Ég skrifaði eitthvað í sumar um tröppurnar okkar og að það þyrfti að brjóta þær niður fyrir hundruðir þúsunda. Þær eru í henglum núna en það þarf ekki að brjóta þær allar og kostnaðurinn enn sem komið er í hæfilegu magni, vonum að það haldist þannig. Verst að þá ákvað bíllinn að láta finna fyrir sér (ekki það við finnum alltaf fyrir þessu blessaða myntkörfuláni....það er að verða komið ár...á ekki að hjálpa manni neitt með þessar bévítans körfur...úps, datt aðeins út af sporinu þarna;)). Bíllinn er búinn að fara í viðgerð tvisvar núna í sumar, 60þús í hvort skiptið. Damn it damn it damn it. Vona að þessu skyndifjárútlát fari að hætta.  Af hverju vill skatturinn aldrei gefa mér peninga??? Alltaf þarf ég að borga honum. Það finnst mér ósanngjarnt.

Núna er að koma verslunarmannahelgi. Stefán er að fara á unglingalandsmót á Sauðárkróki. Ég veit ekki hvort að ég nenni. Spáin er svo blaut að ég held að ég kúri bara heima með prjónana mína. En stefnan er ekki tekin beint á Krókinn. Fyrst förum við á Borgarfjörð þar sem Stefán hefur verið beðinn um að taka þátt í hagyrðingamóti.  Hann er rosa spenntur. Vona að það verði gaman.

Þetta er sumarfríið mitt í hnotskurn...Heiða og Hugrún ætla að heimsækja mig í ágúst. Annars er ekkert planað. Bara gaman að vera til Wink


Sól sól sól finally og sumarfrí :)

Jæja, þá er maður loksins kominn í sumarfrí. Um leið og sumarfríið hófst fór ég í göngu í Valtýshelli. Það er ein af perlum Fljótsdalshéraðs. Og er kallað það með réttu. Afskaplega falleg gönguleið. Við erum búin að ganga tvær aðrar perlur. Myndir má sjá á facebook hjá Stefáni. Talandi um Stefán. Hann er rauðari en allt þessa stundina. Hann fór að setja upp tjald í Hallormsstað og brann svo glæsilega að það er ekki hægt annað en að hlæja að honum. Honum finnst það að einhverjum ástæðum ekkert fyndið.

Ég byrjaði svo sólardaginn í dag á því að þrífa íbúðina. Ég varð að gera það í dag þar sem ég er búin að trassa það undanfarið. Ég er að fara suður á morgun og ef ég væri ekki búin að þrífa áður en ég fer þá myndi ég ekki vilja koma heim. Ekki miklar líkur á að vinnumaðurinn á heimilinu finni hjá sér þörf til að þrífa á meðan ég er í burtu Wink Eftir þrifin fórum við að aðstoða við að setja upp strandblakvöll hérna á Egilsstöðum. Jú víst er stönd á Egilsstöðum....við bjuggum hana til í dag ;) Nú er sko hægt að fara í alvöru stranblak á Egilsstöðum. Kúl maður.  Núna er ég að blogga af því að ég nenni ekki að fara að pakka. Það er svo flókið. Ég veit nefninlega ekki hvenar ég fer aftur heim. Og þá hvort að ég fer heim eða verði í nokkra daga á Akureyri. Þá þarf ég að vera búin að gera tilbúna tösku fyrir Stefán til að taka norður þar sem við verðum þar í tjaldi. Vesen og skipulag sem ég nenni ekki í...en þarf að fara að drífa mig.

Fyrir tveimur vikum fórum við á Borgarfjörð eystra og gistum í tjaldi. Ég svaf næstum ekki neitt þar sem mér var svo kallt. Plís ekki koma með einhver töfraráð um hvernig maður á að klæða sig í tjaldútilegu...ég kann það allt, bara virkaði ekki. Hef gert þetta frá því ég var krakki....og hef aldrei verið eins kallt. Við fórum svo aftur síðustu helgi til að taka þátt í há og lágmenningarkvöldi. Við vorum með pöbkviss. Ég segi við af því að Stefán var beðin um það en ég hjálpaði helling. Go me! Ég tók þá ekki í mál að vera aftur í tjaldi svo við pöntuðum ókeypis lúxusgistingu. Rúmmið sem við fengum var svo gamallt að maður mátti ekki anda djúpt þá brakaði í því. Ég svaf betur þá heldur en í tjaldinu en samt ekki alveg eins og engill. En það er gaman á Borgó.

Skipulagið á Reykjarvíkurferð minni er ekki mikið. Enda ætla ég bara að hafa það gott og heimsækja eitthvað fólk. Sumir voru að eignast börn...aðrir eru bara skemmtilegir. Kannski kem ég að heimsækja þig ???


Íslenska

Það er sól úti en ég er inni. Er alveg á leiðinni út að gera eitthvað en er svo södd að ég meika það ekki alveg strax. Ég sauð grjónagraut handa mér í kvöldmat. Í leikskólanum í dag var sago grjónagrautur. Hann er alveg eins á bragðið en þessi sago grjón eru svo mikill viðbjóður að ég hef ekki lyst á þeim graut. Svo ég geri bara minn eigin heima. Það eru voða margir hérna fyrir austan sem voru aldir upp við þennan graut og Stefán þykist kannast við hann líka. Ég hafði aldrei smakkað svona fyrr en hérna fyrir austan. Hvað með ykkur lesendur kærir ??

Vellti mér uppúr íslensku í dag. Ég hjó eftir því fljótlega eftir að við Stefán byrjuðum saman að hann fallbeygði nafn systur minnar þannig að hann sagði frá Hugrúni. Þetta fannst mér alveg hrikalega ljótt þar sem ég hef alltaf heyrt og sagt frá Hugrúnu. Ég rökstuddi þetta "u" með því að nafnið væri beygt eins og Guðrún o.þ.a.l. frá Guðrúnu og t.d. Heiðrúnu.  Ég fór eitthvað að skoða þetta í dag út frá sömu pælingum um nafnið Róbert. Ég kíkti á netið og fann þar einhverja orðabók sem sýnir fallbeygingar íslenskra orða.  Þar eru þessi orð beygð svona:

Nf.    Hugrún       Guðrún                    Heiðrún      Róbert

Þf.    Hugrúnu     Guðrúnu/Guðrúni     Heiðrúnu    Róbert

Þgf.  Hugrúnu      Guðrúnu/Guðrúni    Heiðrúnu    Róbert/Róberti

Ef.    Hugrúnar     Guðrúnar                Heiðrúnar   Róberts

Ok, samkvæmt þessu er orðið í lagi að smella þessu "i" í staðin fyrri "u" í Guðrún. En af hverju er það þá ekki þannig í Hugrún og Heiðrún. Skil þetta ekki alveg. Ekki það mér finnst þetta "i" vera mjög ljótt og léleg íslenska (hef ekkert fyrir mér í því annað en að mér finnst það ljótt) og ætti ekki að vera "rétt".  Eins finnst mér mjög skrítið að ef að nógu margir tala vitlausa íslensku þá verður hún á endanum rétt. Það er víst kallað þróun tungumáls. Ég fyrirgef svoleiðis stundum ef það koma ný tökuorð en mér finnst þetta kjánalegt með beygingar og orðaröð o.s.frv. En einum "tökufrasa" hef ég óbeit á. Það er frasinn "að meika sens". Upphaflega var þetta unglingamál og þá var nú bara töffaraskapur að segja þetta. En þegar fullorðið fólk, fréttamenn, kennarar og pólitíkusar fóru að nota þennan frasa þá fannst mér þetta vera hallærislegt. Ég hugsaði í margar vikur um hvað væri hægt að segja í staðin. Og það kom á endanum. "Það er ekkert vit í þessu". Mér finnst þetta góður íslendskur frasi sem segir það sama og sá útlenski. Hef notað hann í nokkur ár með góðum árangri Wink 

Vá farið að hljóma eins og ég sé einhver íslenskufræðingur. Ég sem er nýbúin að rífast við Stefán Boga um að ég megi alveg segja á Eyjólfsstöðum ef ég vil...hann vill segja "fara í Eyjólfsstaði".  Ég er mjög léleg í  *í/á/til *staðarnafn**.´

Ég byrjaði nú á því að skrifa þetta blogg í fýlu. Ég er í fýlu af því að ég keypti nýja íbúð og núna þarf að eyða hundruðum þúsunda í að brjóta niður tröppurnar hjá okkur og steypa nýjar. Eitthvað himpigimpi skrúfaði frá einhverjum vitlausum krana í haust og vatnið er búið að skemma tröppurnar okkar. Einhver kall er búinn að viðurkenna mistökin en sénsinn að það fáist einhver peningur úr því batteríi. Og tryggingar borga ekki krónu. AAAAARRG. Bíllinn á verkstæði og það fara alltaf tugir þúsunda í það. Erum nú þegar í mínus.....AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAARRRG. Er svo drullufúl út í heiminn núna.

20% niðurfellingu skulda NÚNA

Veit ekki með ykkur en það myndi bjarga mér. Ekki það við lifum þetta alveg af....lífið verður bara andskoti skítt á meðan.


Sprengjuárás á leikskólanum :)

Ég er farin að halda að ég og Þóra Jenný séum einar eftir í bloggheimum. Nema þessir pólitísku bloggarar en þeir eru klárlega leiðinlegir Wink

Jæja, sumarið er að brjótast fram. Við Stefán fengum okkur bíltúr í Vopnafjörð á sunnudaginn síðasta og þar voru sum túnin orðin svo fagurgræn að það var eins og þau væru einhverskonar neon gras. Flott. Fíflarnir eru líka komnir sem er klárt merki um sumarið sem og býflugur á stærð við litlar mýs. Yndislegt Smile

Nú ætlar allavega einhver hluti af famelíunni minni að heimsækja mig þessa löngu helgi sem er framundan. Eitt stykki foreldrar og kannski einhverjar systur. Mæli með Austurlandinu um helgina, besta spáin InLove. Nú er bara spurning hvað þau vilja gera af sér þessa góðu helgi !!

Ég sá klósett gjósa í dag. Mikil klóaklykt hefur gosið upp reglulega á leikskólanum í vetur. Í dag var verið að vinna eitthvað í lögnunum sem heppnaðist ekki betur en svo að nokkur klósett breyttust í Geysi. Sem betur fer var bara hreint vatn sem gusaðist upp en ekki litað. Ég horfði á eitt klósett þar sem vatnið gusaðist rúman einn og hálfan meter upp á hurðina við hliðina á því. Ég pældi mikið í því hvernig ég gæti lokað skálinni án þess að fá á mig vatn. Fann að lokum brotin húlahring sem ég notaði til að teygja mig í lokið og skella því. Um leið og það tókst hjá mér þá hætti gosið. Ég kíkti inn á eina deild þar sem klósett hafði gosið á svipaðann hátt (þ.e. hreinlega frussast upp úr lögnunum, mjög spes). Þar horfði ein stúlka á mig með áhyggjusvip og sagði svo "það er sprengja í klósettinu". Ég reyndi að segja henni að það væru menn að vinna í lögnunum. Neibb...var ekki að kaupa það....sprengjur í klósettinu.

 


Vorið að koma.

Eðal helgi er liðin. 

Síðustu helgi fórum við hjónaleysin ásamt hjónunum Hlín og Þorgeir til Akureyrar í dekurferð. Ég fór reyndar suður á miðvikudaginn til að vera á námskeiði á fimmtudaginn og flaug svo norður á föstudaginn (í hífandi roki og versta flugi sem ég hef farið í innanlands...var ekkert hræðilegt en þar versta hingað til). Ég lenti á Akureyri um tvö leitið og hin komu keyrandi klukkan sex. Ég hafði það afskaplega nice á meðan. Fór bara í smá smá göngu um miðbæinn...hún var ekki löng sökum mjög leiðinlegs veðurs. Sat þeim mun lengur á bókakaffihúsinu og las slúður og borðaði súkkulaðiköku úr bolla (rándýrt helvíti en vá hvað það er gott !!!)...og drakk kaffi auðvitað. So very cozy.

Upphaflega ætluðum við að fara í leikhús en þar sem við fórum svo seint þá var leikhúsið bara búið. Fórum að borða á Greifanum og í bíó í staðin. Á laugardaginn vöknuðum við snemma og fórum í Aqua Spa í nudd. Þetta var algert dekur, fann ekki fyrir þessu, sem var allt í lagi. Nennti ekki að vera aum það sem eftir var helgar. Við dunduðum okkur svo um daginn en fórum á veitingarstaðinn Friðrik V um kvöldið. Það var GEÐVEIKT. Fengum okkur fimm rétta seðil þar sem við máttum aldrei vita hvað við vorum að fá...renndum frekar blint í sjóinn þar en vá hvað það var gott. Já og skemmtilegt. Þjónarnir voru á okkar aldri, annar ferlega hress, fyndinn og skemmtilegur, hinn var fyndinn án þess að ætla sér það. Ég spurði hann hvað "tartan" væri þar sem við fengum saltfisks tartan í for forrétt. Hann sagði okkur bara aftur að þetta væri í boði kokksins eða eitthvað og endaði svo á því að segja að tartan væri sko útlenska. Ó fyrirgefðu...vitlausa ég að vita ekki að tartan væri útlenska.  Veit bara hvað þetta er af því að ég heyrði hinn þjóninn útskýra það fyrir einhverjum öðrum.

En já góð helgi. Nú er ég farin að hlakka til næstu helgar af því að ég ætla að þrífa. Hef ekki þrifið lengi þar sem við vorum í burtu um helgina og þar á undan vorum við svo mikið í sveitinni. Og svo auðvitað eurovision. Við erum búin að ákveða að hafa eurovisionprjónagrill partý á egilsstöðum á laugardaginn. En ofsalega er ég að verða ánægð með júróið. Að hafa tvær stórar undankeppnir og svo líka að á laugardaginn gilda símaatkvæðin 50% og dómaraval 50%. Held að það sé góð formúla. Þá vinnur ekki alltaf ballaðan eða alltaf popparinn í minnstu fötunum Wink

Bjó til kjötsúpu í fyrsta sinn í vikunni. Hepnaðist mjög vel eftir að ég hringdi í mömmu og spurði hvort að ég væri að gleyma einhverju. Setti aðeins meiri kjötkraft og þá var hún brill. Áfram ég Tounge

Sumarfríið mitt fer að verða svo þétt skipað að ég held að ég þurfi sumarfrí eftir sumarfríið mitt LoL Fyndið mér hefur yfirleitt líkað vel við allar árstíðir, þær hafa allar sinn sjarma, sem er alveg rétt. En vá hvað ég elska sumarið. Finn það bara þegar ég labba í vinnuna á peysunni með hrossagauksvellið í eyrunum. Yndislegt InLove

Ég fór til læknis í dag til að láta líta á einhvern hnút sem ég er með hjá ökklanum og er búin að vera með í einhver þrjú ár. Ég er nefninlega handviss um að hann hafi verið að stækka. Og áfram ég, hann hafði stækkað. Nú bíð ég eftir að læknastrákurinn hringi í mig (hann var ekki mikið eldri en ég...en alveg ágætur:) og segi mér hvenar ég megi fara á Neskaupsstað eða Akureyri og láta heila og taugaskurðlækninn taka hnúðinn í burtu þar sem hann er farinn að bögga mig.   Er bara svo ánægð þegar ég fæ eitthvað út úr læknaheimsóknum. Þoli ekki þegar ekkert kemur út og enginn veit neitt, bara bíða og sjá eða eitthvað.

Búin í bili.


Sauðburður

 Jæja þá er þessi laaaanga helgi að verða búin. Mér finnst þessi helgi hafa verið síðan á fimmtudag af því að þá byrjaði blakmótið og við vorum í sveitinni langt fram á nótt. Blakmótið var öldungamót 2009. Maður þarf að vera þrítugur á árinu til þess að taka þátt í því svo að ekki fengum við að vera með. En við máttum hjálpa til. Við Stefán sáum um það að skrásetja úrslit leikjanna í þar til gert forrit á netinu. Very important mál. Við vorum semsagt í íþróttahúsinu frá fimmtudegi til laugardags. Það var ágætt. Gaman að fylgjast með og fá að vera aðeins með. Ég fór svo á lokahófið á laugardeginum sem var á seyðisfirði. Ætlaði reyndar ekkert að fara en svo var mér boðið svo fallega að ég ákvað að skella mér. Það var alveg stórfínt. Ein mynd af hófinu...sem var með ´80 þema.

Lokahóf blak 09 009

Við erum búin að fara nokkrum sinnum í sveitina og ég er loksins búin að sjá lamb fæðast. Við fórum á sunnudaginn og þá sá ég ekki neitt. Kindurnar voru alltaf nýbúnar að bera þegar ég kom. Þann daginn fékk ég bara að sjá hvernig móðurlíf og skeifugörn lítur út. Ein rollar var eitthvað rugluð í anatomiunni og skeifugörnin var að troðast út um afturendann á henni og móðurlífið kom út um fæðingarveginn. Þeirri rollu var lógað.  Við fórum aftur á þriðjudaginn og þá fékk ég loksins að sjá lamb bera fallega og eðlilega. Þá koma út tveir fætur, einn haus og svo rest. Tvisvar sinnum var ég að skoða rollurnar og sá bara haus "horfa á mig" út um bakhluta kindar. Þar sat hann fastur (það voru semsagt haus og einn fótur). Þá hljóp ég fram og náði í Völu bóndadóttur..."Vala ég sé bara einn haus og einn fót...það er eitthvað vitlaust".  Þá kom vana manneskjan hlaupandi og tróð hendini á sér inn um fæðingarveginn, fann hinn fótinn og dró lambið út. Spes.

Á fimmtudaginn skelltum við okkur í sveitina og vorum fram á nótt. Þá vorum við með eina kind í skigtinu sem var búin að bera einu lambi. Það er nú algengast að þær séu tvílembdar svo við biðum eftir næsta. Ekkert gerðist. Mér fannst hún svo magamikil að ég var viss um að það væri annað lamb. Á endanum ákvað ég að fara til hennar og káfa aðeins á henni, athuga hvort að ég fyndi fyrir öðru lambi í kviðnum á henni. Ég náði henni og þreyfaði. Ég gat ýtt (ekki fast samt) "kúlunni" á henni inn...hún var bara svona eins og blaðra. Mundi það svo að ég hef ekkert káfað á rollubumbum með lambi svo ég vissi ekkert hvað ég ætti að finna. Þá fór ég og fann mér rollu sem var ekki búin að bera. Þessi sem ég fann lá á gólfinu og var orðin svo mikil um sig að ég held að hún hafi ekki nennt að standa upp þegar ég kom. Þannig að ég gat káfað á henni. Þar var sko ekki hægt að ýta neinu inn... Þannig að ég kvað upp minn dóm...að þessi rolla væri einlembd. Fór til Ingibjargar bóndakonu og sagði henni frá niðurstöðum mínum. "Já helduru að hún sé bara með eitt...fórstu inn í hana ?" Já nei....það datt mér nú ekki í hug...

Kindur eru stórmerkileg fyrirbæri. Á haustinn eru þau fjandanum klárari að komast undan manni þegar maður er að reyna að reka/smala. Svo þegar þær eru búnar að bera verða þær skyndilega fjandanum vitlausari ! Týna lömbunum sínum, stela frá öðrum, neita að eiga þau o.s.frv.o.s.frv. Vinnan felst stundum í því að passa að öll lömbin séu á réttum stað og hjá réttri rollu. Meiri vitleysingarnir...

Smá myndir af ævintýrunum í sveitinni

Sauðburður 09 010

Þessu lambi leið best í körfu....veit ekki af hverju

Sauðburður 09 012

Halló...við erum rosalega óléttar og nennum ekki að standa upp !!! Nokkurs konar fæðingargangur Wink

Sauðburður 09 019

Einhver aðeins að misskilja !!

Sauðburður 09 023

Fann mér eitt svart lamb til að pósa með

Sauðburður 09 038

Þetta lamb heitir í mínum huga jókerinn. Það er alveg eins og jókerinn í batman !!

Sauðburður 09 045

Ný kominn í heiminn. Sum lömbin eru með svona gult slím utanum sig þegar þau fæðast. "kjöt í karrý" sagði Bóndinn og glotti....

Sauðburður 09 049

Oh við erum svo dugleg. Það hafa fæðst mörg svona mögótt lömb á Hrafnabjörgum núna (eins og Stefán heldur á). Bændunum hér þykja þau ljót á litin en mér finnst þau ferlega flott og verð hálf móðguð þegar þau dæsa yfir þessum dúllum. En ullin er víst verðminni þegar hún er svona !!

Sauðburður 09 074

Og þetta er svo hún Baldursbrá. Hún er þriggjavetra meri sem Jónas fékk sem borgun fyrir heyrúllu. Hún er ótamin ágætlega gæf. Hún er eina hrossið sem er á Hrafnabjörgum. Þau eru ekki mikið fyrir hesta. Vilja helst hafa þá í tunnu ! Skil ekki svona.  En það þurfti semsagt að ferja hana á milli húsa í dag. Það var ekki það auðveldasta. Hún vildi að sjálsögðu ekki láta ná sér. Það var kallað á mig þar sem ég var eina "hestamanneskjan" á svæðinu. Ég er nú reyndar vanari tömdum hrossum en hvað um það. Við náðum henni á endanum í svona múl eftir smá stapp. Merkilegt að enginn hafi slasað sig á meðan því stóð þar sem hún prjónaði tvisvar þrisvar. En ég náði að setja múlinn á hana EN HÚN BEIT MIG Í BRJÓSTIÐ Á MEÐAN! Ég hef bara aldrei áður lent í því að vera bitin af hesti og var hreinlega búin að gleyma því að það gæti gerst. Var svona meira að passa mig á því að fá ekki hóf í hausinn. En ég er semsagt með smá bitfar og mar á brjóstinu eftir hana Baldursbrá. Við Stefán ferjuðum hana svo niður í önnur hús. Það gekk stórvel miðað við það að hún vildi ekki fara niður brekkur, ekki yfir girðingu, snjó eða læk. En það hafðist Cool

 


Kostningadagurinn mikli

Sit í Austrasalnum með grænt glas við hliðina á mér. Glasið (og glösin) keypti Stefán Bogi í Rúmfatalagernum á Akureyri um daginn. Fór að kjósa áðan og er núna að gæða mér á framsóknarkostningarkaffinu fræga (það besta á landinu er mér sagt). Ég bjó til ostasalat fyrir þá. Jebbs ég er að verða framsóknarkella á Austurlandi. Það er bara alveg ágætt. Ekki slæmur félagsskapur. Verst að ég er ekki mikill bakari. Á ekki hrærivél (sem er nú ekki bráðnauðsynlegt) né kökuform (sem er verra!). Ég hef t.d. aldrei bakað marens. Hef heyrt að það sé vandaverk og þess vegna þori ég því ekki. Konurnar hérna á Héraði koma með hverja Hnallþóruna á fætur annarri hérna inn og ég veit núna hvað Hnallþóra er. Ég spurði mömmu nefninlega að því í vikunni. Það eru sko svona dúlleríis kökur/tertur, oft með rjóma.

Ég hef ekki verið dugleg að prjóna undanfarið. Litla peysan mín er nefninlega ekki fyrir neinn sérstakan og þess vegna þarf ég ekkert að flýta mér með hana. Nú er hins vegar búið að biðja mig um að prjóna lopapeysur. Ég held að það séu þrjár sem eru að vinna með mér sem hafa beðið mig að prjóna fyrir sig. Ég þarf bara að fara að búa til business út úr þessu. Hef heyrt að þær sem eru að selja í búðir taki 500 krónur á klukkutímann. Þá yrðu mínar peysur nú svolítið dýrar þar sem ég er örugglega ekki eins fljót og þær. En kannski að maður setji einhvern smá pening ofaná efniskostnaðinn fyrir vinnuna. Smá bónus til að setja í brúðkaupssjóð Wink nú eða hundasjóð Tounge

 


MYNDABLOGG

Trúi því ekki að enginn hafi trú á okkur Stefáni í quicksteppið....eða þá að það les enginn blogg lengur....já það hlítur að vera ástæðan.

Myndaupdate

Þetta gerði ég á leikskólanum fyrir páska. Þetta listaverk er gert úr lituðum eggjaskurnum.

Árið 2009 016

Svo er það gluggaræktunin mín.

Þetta er dvergbíturinn minn (vinstra megin), ekkert komið á hann nema stór stór lauf. Hægra megin er kóríander. Notaði nokkur lauf af honum í salatið áðan og komst að því að þetta krydd er vont. Damn it.

Árið 2009 017

Næst eru svo timíanið og oreganoið. Timíanið var of æst þegar ég byrjaði, kom uppúr moldinni og visnaði svo bara og dó. Ég reyndi aftur og en sem komið er er bara mold og fræ í timíanpottinum. Oreganoið er að taka við sér. Var hrædd um að það færi sömu leið og timíanið en það er allt að gerast og oregano lykt ef maður setur nefið ofaní pottinn.

Árið 2009 019

Svo er það tréblómið sem ég þarf aldrei að vökva. Við hliðina á því er svo myntan. Ég bíð spenntust eftir henni af því að það er gott að naga myntublöð. Og auðvitað gerist ekki neitt þar. Myntan hefur tvær vikur í viðbót til að hunskast uppúr moldinni, eftir það gerist eitthvað drastískt.

Árið 2009 020

Svo er það óskilgetna plantan. Henti nokkrum paprikufræum úr papriku í ísskápnum í pott og vökvaði reglulega. Núna er þetta að gerast. (hin voru sko keypt í blómaval!)

Árið 2009 018

Svo er ég loksins búin að setja gardínur upp og er sátt við þær. Ég krullaði þær ekki utanum stöngina eins og ég ætlaði upphaflega að gera heldur lagði þær bara fallega yfir....kom mér á óvart og Stefán var alveg stein hissa á þessu Tounge

Árið 2009 021 

Soldið dökk mynd en svona liggja þær...dökk grænar og hinar undir eru fjólubláar.

Var ég búin að sýna ykkur peysuna sem ég prjónaði fyrir samstarfskonu mína um daginn ??

2606_55008158315_592253315_1596200_3556126_n

Maðurinn hennar er reyndar búinn að stela peysunni Bandit

Held að þetta sé "it" af myndum í bili. Untill I will blog again ...


Páskarnir komnir

PÁSKAFRÍ ... finally.  Ég er heima að horfa á fjölskyldumynd frá 1994 á rúv. Ég horfði á þessa mynd sem krakki og fannst hún rosa skemmtileg. Finnst hún ekki alveg jafn skemmtileg og núna en alveg ágætis fjölskyldumynd um krakka sem búa sér til sumarbúðir af því að þau vilja ekki fara í þær sem foreldrarnir vilja senda þau í. Stuð hjá mér. Í gær horfði ég á myndina Shall we dance. Hún var líka á rúv. Rúv er alveg að brillera í bíómyndavali. Rosa væri ég mikið til í að læra quickstep dans. Hann er geðveikt flottur. Miklu flottari en vals og eitthvað svona væmó. Hvernig væri að við Stefán dönsuðum brúðarkvikkstepp í brúðkaupinu okkar frekar en einhvern væmó vals ?? Ég þykist geta hreyft fæturna svona hratt...Stefán er ekki viss.

Hvað haldið þið ?? Getur ekki verið svo erfitt, steppidí stepp, hlaupedí hlaup, hoppedí hoppedí stepp. Sko er næstum því búin að ná þessu !  .....þyrftum reyndar svolítið stórt dansgólf Woundering

Það er kominn vorfílingur í mig. Sem er ekki alveg nógu gott þar sem það er bara apríl og það koma alltaf einhver hret í lokin. Fuglarnir eru samt að koma aftur. Við sáum svani og gæsir fljúga yfir um helgina. Hef reyndar ekki hugmynd um hvort að þessir fuglar fari alltaf af landi brott en ég hef allavega ekki séð þá í vetur. Svo eru fuglarnir líka farnir að syngja fyrir mig þegar ég labba í vinunna á morgnanna. Voða vorlegt.  Fékk líka svona extra vor í hjartað í gærkvöldi. Þá var ennþá bjart þegar ég var búin að borða og mig langaði voða mikið til að fara út og gera eitthvað. Ég gerði það ekki en mig langaði til þess Wink   Það þýðir að það sé að koma vor. Þegar mann langar alltaf til að vera úti.

Við Stefán fórum í sunnudagsbíltúr á Akureyri síðasta sunnudag. Ég hef bæði heyrt sögur af fólki sem gerir þetta stundum, þ.e. vera bara einn dag. Öðrum finnst þetta svolítið langur bíltúr. En við höfðum það voða gott. Fórum í rúmfatalagarinn, hlölla báta, greifann og á kaffihús. Heimsóttum líka Urði og manninn hennar. Alveg hreint luvelly. Okkur finnst líka svo gaman að spjalla og keyra. Þegar við verðum komin með þrjú börn og þurfum að komast út til að rækta sambandið þá förum við ekki út að borða eða eitthvað svoleiðis...við förum í bíltúr. Mjög djúpar samræður sem skjóta upp kollinum t.d. á möðrudalsöræfunum. Ljómandi góður bíltúr og gaman að koma á Akureyri. Váts hvað ég hlakka til að fara þangað í dekurferðina í maí InLove

Gleðilega páska Kissing


Something

Hægt er að fá bílinn afhentan við heimkomu. Ég ætla rétt að vona það. Nei því miður þú getur ekki fengið bílinn þinn fyrr en tveimur dögum eftir heimkomu !!! .... nei bara svona pælingar um auglýsingu frá bílastæðum securitas hjá leifsstöð.

Ví bara vika í páska. Við ætlum að vera á Egilsstöðum um páskana. Tími ekki að borga 40 þús fyrir flug eða keyra í tvo daga af fimm. Svo við ætlum að hafa það huggulegt heima núna. En þið eruð velkomin í heimsókn...á svefnsófa fyrir tvo Wink

Jæja það er loksins búið að niðurskera mig. Hádegisálag sem hefur verið greitt í góðærinu í þessu sveitarfélagi hefur verið skorið af. Sem er þannig séð allt í lagi þar sem það er ekki í kjarasamningum. En þetta er voða hitamál hérna þar sem what ever og what ever. Nenni ekki að skrifa það allt.  Skil alla punkta málsins og tek því sem að höndum ber. Ég er allavega ennþá með vinnu. Leiðinlegi parturinn af þessu er fundurinn sem ég var áðan. Hefði alveg verið til í að sleppa honum. Hann fór nákvæmlega eins og búast mátti við. Starfsfólk kvartaði (sumt með réttu, annað óþarfi), bæjarstjórn, ráð og fræðsluráð skildu allt voða vel og fannst voða leiðinlegt að vera vondu karlarnir. Fundi var slitið rétt eftir að stjórarnir urðu pirraðir og fóru að blóta og móðga starfsfólk með illa úthugsuðum kommentum. Aumingja þeir. Misstu líklega einhver atkvæði þarna, en ég efast um að margir leikskólastarfsmenn kjósi sjálfstæðisflokkinn hvort eð er. En einn og hálfur tími af lífi mínu sem ég fæ ekki aftur. Fyrir einhverju síðan var "hagstæðara" að vera leikskólakennari heldur en grunnskólakennari. Núna er "betra" að vera grunnskólakennari. Skil ekki af hverju þetta er ekki sambærilegt...bara skil það ekki.

Annars er nú ekki mikið að frétta af þessum bænum. Stefán hefur voða mikið að gera. Ég hef ekki alveg eins mikið að gera, en það er af því að mér finnst gott að slaka á og dekra við sjálfa mig með leti Cool 

Það var vont veður í gær. Mér fannst ekki vera vont veður á Egilsstöðum og það var það ekki. Það er mjög sjaldan vont veður nákvæmlega hérna. En það þurfti ekki að fara lengra en í Fellabæinn til að það yrði brjálað. Upp í fjörutíuogeitthvað metra á sekúndu. Crazy. Og ein aumingjans kona sem upplifði væntanlega martröð allra óléttra kvenna á austurlandi, að festast í óveðri í oddskarði með hríðar. Fjúff.

Jæja núna er ég farin að rausa...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband