Þorrablót og venjulegt.

Þorrablótið á föstudaginn tókst stórvel. Stefán Bogi fór að sjálfsögðu á kostum og var kynntur inn sem Stefán úr sjónvarpinu. Hann segist reyndar hafa verið kynntur sem Bogi úr sjónvarpinu en ég er ekki sammála því. Stefán söng og talaði út í eitt og ég er ekki frá því að það hafi verið hlegið. Sem er gott. Ég þjónaði til borðs og er sannfærð um að ég hafi fengið fýlu borð. Vá hvað mér fannst þetta fólk leiðinlegt. Ekki jafn slæm og fíflið sem var á borðinu við hliðina en hann er þekktur nöldrari og í mínum bókum er hann núna fáviti. Var næstum því búin að segja honum það og segja honum að halda kj.... Veit ekki hvað það var sem hamlaði mér í því ! Fyrir utan þetta gekk vel. Spes samt að ég var á "glasavakt" í klukkutíma og það kom mér stórkostlega á óvart hvað fólk var viðkvæmt fyrir glösunum sínu. Mér fannst stundum eins og ég væri að rífa hjartað úr fólki þegar ég spurði hvort að ég mætti taka tóma glasið þeirra. Vildi að það væru fleiri gestir eins og ég er....ég er voða kurteis og reyni að vera hress. Þetta fólk var það ekki !!!

Á laugardaginn fórum við í mat í sumarbústað til Stellu Rúnar frænku Stefáns og kærastans hennar. Það var svo ljómandi fínnt. -16 til -20 á leiðinni og þau að grilla læri...ekki eitthvað sem mér hefði dottið í hug. Læri, meðlæti, súkkulaðikaka og ís og marssósa. Gerist varla betra. Spiluðum svo Risk. Var ekki í stuði fyrir það. Svo pictionary. Mun betra.

Á sunnudaginn fengum við bandarískan körfuboltamann í mat. Honum leiðist svo mikið hérna að við Stefán urðum að gera eitthvað fyrir hann. Hann fékk fisk að borða og var voða kátur með það. Svo fór hann og ég hringdi í tvo íslendinga og bauð í spil. Og ég "bakaði" kókoskúlur. Jammí.

Kláraði loksins peysuna mína sem ég er búin að vera tæpt ár að klára...nú eða bara heillt ár. En hún var þess virði...voða flott og ég fæ þvílíkt hrós fyrir hana. Set kannski inn mynd þegar ég nenni. Já og af hárgreiðslunni minni á þorrablótinu. Tók ekki myndir af neinu öðru....ég er alveg ótrúlega lélegur myndatökumaður...að ég hafi ekki tekið myndir af því þegar austfirskur bóndi á sjötugsaldri, í pilsi og með bleika hárkollu skakaði sér utaní Stefán Boga...synd synd synd...

Allt fréttir maður á facebook....núna á "litli" frændi von á barni....ég er svo mikið eftirá...Blush

Útsvar á föstudaginn !! Allir að hugsa gáfulega til Stefáns !!!


Ljós

Við Stefán brunuðum í húsasmiðjuna í gær til að athuga hvort að eitthvað væri eftir af ljósum sem var verið að auglýsa á 70% afslætti. Og yessss við fengum síðustu ljósin í búðinni. Fékk reyndar svolítið samviskubit þegar nágrannakona okkar kom 5 mín á eftir okkur og ætlaði að fá sér svona ljós. Úps við vorum búin að panta það og það var verið að taka það niður fyrir okkur. Hefði verið betra ef ég hefði ekki þekkt manneskjuna. Damn. En allavega þá fengum við þessi fínu ljós í stofuna á einhvern sexþúsund kall í staðin fyrir einhvern átján þúsund. HAHA það borgar sig stundum að bíða og hafa rússaperuna hangandi....

Oh það fer svo mikill tími í þennan þorrablótsundirbúning að ég er ekki að ná að klára peysuna mína...og það er svo kalt og mig langar að vera í henni og og og....væl..  Hún á örugglega eftir að stækka í þvottinum og verða ómöguleg og ég grömpí...það er mjög týpískt...


Reykjarvíkurnætur...

Reykjarvíkurferð lokið og ekki búin að ákveða hvenar ég kem næst. Eina ferðaplanið so far er dekur/menningarferð til AKureyrar í mars. Fjúff ég hlakka sko til þess.

EN Reykjavíkin mín var indæl. Stórafmæli hjá mömmu á laugardaginn sem tókst voða vel og það var voðalega gaman. Pabbi bað mig um að vera veislustjóri og gekk það ágætlega. Fólk hló allavega aðeins og allir skemmtu sér vel. Ég komst líka á kaffihús þrisvar....einu sinni með fólki og tvisvar sinnum totally alone með slúður og dúllerí. Love it. Mánudagurinn fór svo í verslunarleiðangur þar sem ég þurfti að kaupa þrjár afmælisgjafir og smádót handa mér sem fæst ekki fyrir austan. T.d. mango chutney (þau eru bara ekki góð sem fást í bónus) og multidopholus gerlar (sem reyndar fást hérna en eru ekki geymdir í kæli eins og stendur á boxinu !!!).

Ég flaug svo heim á mánudaginn í bestu flugferð sem ég hef farið í. Vélin haggaðist ekki í loftinu (það er hún fór áfram en ekki stanslaust upp og niður) og ferðin var eins smúð og hún getur orðið. Svo var heiðskýrt alla leiðina sem og snjór yfir öllu. Ég var á ferðinni í ljósaskiptunum og það var alveg magnað að sjá nánast "allt". Ég sá Bláfjöll, Hellisheiði, Hveragerði, Selfoss, Vestmannaeyjar, Hellu, Hvolsvöll, laugarvatn, sumarbústaðabyggðir og væntanlega jökla þó að ég hafi ekki séð mikinn mun á þeim og öðru. Svo þegar við vorum komin á austurhlutann benti flugstjórinn okkur á að á hægri hönd sæjum við ljósin frá Höfn í Hornafirði og á þá vinstri sæjum við Akureyri og Hlíðarfjall. Ég sá reyndar ekki Akureyri en fannst alveg eins magnað að sjá Höfn og vita að það sæist einnig til Akureyrar. Creizy að það sjáist svona stranda á milli. Litla land.

Í gær sat ég svo heima og djöflaðist við að klára frágang á peysunni sem ég kláraði að prjóna í haust. Mamma var búin með saumavélavinnuna fyrir mig en eftir var hellings frágangur sem ég náði ekki einu sinni að klára í gær. Á eins og hálfa kvöldstund eftir. Ekkert smá mikið vesen að klára þessar flíkur....  Er svo að verða búin að prjóna mér aðra lopapeysu. Hún er rennd og ég er mikið að spá í hvort að ég eigi ekki að fá saumakonu til þess að setja rennilásinn í hana. Aðallega svona til þess að halda geðheilsunni minni. Geðheilsan er nefninlega svolítið tæp þegar kemur að rennilásaísetningu. Komst að því fyrir nokkrum árum....Skammast mín ekkert fyrir það. Amma mín sem hefur prjónað milljón peysur kann ekki ennþá að lykkja undir höndum þó að mamma hafi kennt henni það hundrað sinnum. Hafiði það...ef hún kemst upp með að kunna það ekki þá kemst ég upp með að missa geðheilsuna yfir rennilásum.....hah!


Týnd

Ég týndist í gær. Ekki uppi í sveit eða einhverstaðar þar sem var kolniða myrkur eða neitt svoleiðis. Nei nei. Ég var á leiðinni í íþróttahúsið. Stefán var á bílnum og komst ekki svo ég ákvað að labba á blakæfingu. Hef gert það einu sinni áður og það var ekkert vandamál. Í gær ákvað ég að leita eftir göngustíg sem ég veit að er þarna einhverstaðar og gerir leiðina mína í íþróttahúsið styttri. Var búin að fá leiðbeiningar um hvar hann væri. Fann hann ekki og endaði næstum því úti í móa. Vissi ekki að þetta væri hægt á Egilsstöðum. Ég mun héðan í frá leita af göngustígum í dagsbirtu helst með kort.

Annars tókst mér aftur að hlaupa tvo kílómetra á tólf mínútum. Áfram ég !!!

p.s.hvað á ég að gefa Hugrúnu og pabba í afmælisgjöf....???


Þorrinn mættur

Jæja. Held að það sé rétt hjá Hugrúnu....mánudagar eru mínir hlaupadagar. Hlaupa planið var svona:

Fyrsta markmið: að ná að hlaupa þrjá kílómetra á 20 mínútum.

Annað markmið: að hlaupa tvo kílómetra á 12 mínútum.

Þriðja markmið: að hlaupa hvern kílómeter (fyrst einn....svo fleiri) á fimm mínútum.

Í dag náði ég að hlaupa þrjá kílómetra á 19 mínútum OG tvo kílómetra á 12 mínútum. Vissi ekki að ég ætti þetta til. Nú veit ég að ég get þetta... þá er bara spurning hvort að ég geti þetta aftur....og aftur...og aftur??? Spurning þó hvort að ég vilji gera þetta aftur. Stefán hefur hótað því að senda mig á landsmót UMFI sem keppanda Hattar í hlaupi. Ekki alveg á mínu plani Errm En confident booster nr. 1

Við fórum á tvö þorrablót núna um helgina. Á föstudaginn fórum við á blótið á Egilsstöðum. Það var mjög gaman og ég fattaði alveg helling af bröndurum. Ég borðaði mest af saltkjötinu sem hafði þó þann leiðinlega ókost að það var ekki salt ! Soldið óheppilegt, aðallega út af nafngiftinni. Alveg vel ætt samt....Frétti það núna í dag að einhver strákur á mínum aldri spurði eina samstarfskonu mína hvaða gella þetta væri (það var ég Cool). Confident booster nr. 2

Á laugardaginn renndum við niður á Borgarfjörð á blótið þar. Það var líka voða gaman. Þekkti ekki eins marga en saltkjötið þar var alvöru og rosalega gott. Ég fattaði ekki jafn marga djóka þar en þeir brandarar sem ég þekkti til voru stórkostlegir. Afskaplega sniðugt fólk á Borgó. Sá eini sem reyndi við mig þar var íþróttahúsvörðurinn sem er á sextugsaldri. Ekki confident booster nr. 3

En ég fann nokkra ættingja á borgó. Og þeir voru mjög spenntir fyrir því svo það var voða gaman. Mamma verður að koma með mér í allavega tvær heimsóknir þegar hún kemur næst að heimsækja mig. Verst að ég gleymdi myndavélinni minni í bæði skiptin. Blurp.

Ég kem í bæinn á föstudaginn. Vey.

Einn punktur í umræðum um forsætisráðherra. Til greina komu (á einhverjum tímapunkti í umræðunni allavega)  Ingibjörg Sólrún, Jóhanna Sigurðardóttir og Þorgerður Katrín. Enginn karlmaður í umræðunni.....gaman að því. En annars þurfa þessir háu herrar og frúr að setja eitthvað saman fljótt....mér líður illa í óvissu  Crying


Bakkastígur og Vesturgata

Ég ólst nánast upp á Bakkastígnum með "útsýni" yfir Daníelsslipp. Á endanum er lítið krúttlegt hús sem ég veit ekki betur en að sé friðað! Á þá að byggja háhýsi fyrir aftan það eða í kringum það ?? Skil þetta ekki alveg, en er komin með nóg af háhýsum...finnst það ekki "íslenskt".

Ég er nú ekki mikið inni í skipulagsmálum borgarinnar en ég vissi af því þegar fólk á Vesturgötunni tók sig saman og vildi fá einstefnu á litlum parti á götunni. Það tók smá stapp og pappírsvinnu en að lokum gaf borgin leyfi fyrir því og setti upp einstefnu..... í "vitlausa" átt. Íbúar báðu um einstefnu í "hina" áttina. Einstefnan er "niður í bæ" en íbúarnir vildu fá hana "upp úr bænum". Næstu götur fyrir ofan Vesturgötuna eru nefninlega einnig einstefnugötur, þ.e. Ránargata og Bárugata og mig minnir að Öldugatan sé líka einstefna. Og allar göturnar eru með einstefnu í sömu átt !!!Hversu vitlaust er það ? Maður þarf að taka þvílíkt stóran krók til að geta haldið áfram upp Vesturgötuna. Væri nú betra að hafa einstefnuna "niður" aðra hverja götu og "upp" hinar á móti. Nei nei það er of flókið....kjánaprik !

Held að ég hafi aldrei notað eins mikið af gæsalöppum í einni færslu !!Wink


mbl.is Skipulagsslys á Slippareit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá því í fyrra :)

Þetta skrifaði ég um síðustu áramót :

Annars hlakka ég mikið til að 2008 byrji. Ég er nefninlega orðin 25 ára og mér finnst það rosalega flottur aldur. Ég held þess vegna að það sé rosalega gaman að vera 25 ára og ég verð það meiripartinn af 2008. Þess vegna hlýtur árið að vera skemmtilegt og eitthvað skemmtilegt að gerast. Kannski gerist eitthvað stórt. Kannski gerist eitthvað rosalega merkilegt. Vonandi Cool

Það má með sanni segja að þetta hafi gengið eftir !!! Ég trúlofaði mig, keypti íbúð og flutti hinum megin á landið....ef það er ekki stórt þá veit ég ekki hvað Joyful En já það var mjög gaman að vera 25 ára. Öfunda alla sem eru 25. Það er ágætt að vera 26 og aldrei að vita nema 2009 verði betra en 2008 !!! Það verður erfitt en aldrei að vita.

Ég rann aðeins út af veginum áðan. Var á leiðinni að sveitabæ þar sem stelpan sem ég er með í liðveislu býr.  Sá eftir því að hafa boðist til að fara til þeirra um leið og ég beygði út af aðalveginum. Það var bara gler á veginum. Ég var svo stressuð að ég keyrði í fyrsta og öðrum gír. Sem gerði það að verkum að ég dreif ekki upp litla brekku. Ég bakkaði niður hana aftur og labbaði að bænum sem ég vonaði að væri sá rétti. Hann var það ekki og ég þurfti að fara aðeins lengra....konan á þessum bæ sagði að ég ætti alveg að komast upp þessa litlu brekku með því að keyra á kantinum. Ég gerði það og festi bílinn þar sem hann rann alltaf aðeins lengra og aðeins lengra út í kantinn. Bóndinn mætti á svæðið til að aðstoða litlu mig en honum gekk ekkert betur. En hann skutlaði mér þessa stuttu leið að rétta bænum þar sem ég eyddi einhverjum tíma. Svo kom næsti karlmaður á svæðið og saman náðu björgunarsveitarbóndinn og fyrrverandi torfærukappinn bílnum mínum upp. Ég bað þá að fara varlega þar sem þetta er rándýr myntkörfukaggi. Ég vissi ekki betur en að bíllinn væri á nöglum en þegar ég skoðaði hann betur þá voru svona tveir naglar í framhjólunum (á framhjóladrifna bílnum) en fullt af þeim í afturdekkjunum.   Spes.....

En mig langar núna í jeppa á nagladekkjum....allavega á ofurdekkjum. Vill einhver skipta ??? 


Ofurhelgi....

Helgin búin og ég var SVO dugleg. Ég tók til, þreif, gekk frá jólunum (kominn tími til), þvoði þvott, endurraðaði í pottaskápinn, tók til í bókhaldinu, límdi niður símalínur og þreif baðið með matarsóda ! Þess á milli spilaði ég við Þorgeir og Hlín, fór í ræktina, prjónaði og endaði svo helgina á því að fara á kristniboðsfund. Rosalega er ég dugleg þegar Stefán Bogi er ekki heima LoL Hugsa sér hvað ég gæti gert ef ég væri einhleyp....Tounge

Djók

Ég er samt búin að uppgötva dagsformið. Það er ekkert bull þegar íþróttamenn útskýra tapleik með því að dagsformið hafi verið lélegt ! Ég fór í ræktina síðasta mánudag og kom mér á óvart með hlaupaþoli. Ég fór svo aftur á miðvikudaginn og ætlaði svo að toppa mánudaginn. Ég gafst upp þegar ég var búin með helminginn !! Fór svo að hlaupa í gær og hljóp eins og vindurinn !!! Skil þetta ekki aaaaalveg.     En ég er samt komin með hlaupa markmið. Við Þorgeir bjuggum það til í gær áður en við fengum okkur súkkulaði köku Grin Byrja á því að hlaupa þrjá kílómetra á 20 mín. Þegar það er komið þá eru það tveir kílómetrar á tólf mín. Sem eru svo þrír kílómetrar á 18 mín. Eftir það er stefnt á 5 mín kílómeterinn.  Svakalegt plan !!! Og mér sem finnst leiðinlegt að hlaupa. Þarf að uppfæra iPodinn minn fyrir þetta göfuga verkefni. Svo er það lyftingarprógaramm....það er sko allt önnur ella gella. Þar kemur fjarþjálfarinn að góðum notum. (sem ég er samt ekki búin að fá en er að hugsa mikið um !!!).

Oh ég þarf að vinna til átta í kvöld....það er rosa langt þangað til.....


Ræktin 2009 !!

Ben Affleck og Jennifer Garner eignuðust stelpu í síðustu viku. Þau hafa nú ákveðið að heiðra biblíuleshópinn minn með því að skíra dóttur sína í höfuðið á hópnum. Hópurinn heitir s.s. Serafar og barnið heitir Seraphina Rose Elizabeth Affleck. Seraphina er víst "byggt á hebreska orðinu „seraphim", sem notað er í Biblíunni um engla með stóra vængi sem sitja umhverfis kórónu Guðs." Nú er ég ekki guðfræðingur og veit því ekki hvort að þetta sé nákvæmlega rétt skýring. Veit samt að þetta eru englar. En annars þá þökkum við í biblíuleshópnum Seröfum kærlega fyrir þann heiður sem okkur hefur verið sýndur og bjóðum fjölskylduna hjartanlega velkomna á hitting hjá okkur  Cool

Að öðru.

Ég fór í ræktina á mánudaginn þar sem BC var dottið uppfyrir. Það var þrennt sem kom mér á óvart.

Nr. 1  Þetta er rosalega flott aðstaða. OK aðstaðan sjálf er kannski ekkert rosaleg. Tækin eru annsi nálægt hvert öðru og teygjuloftið er undir súð og töluvert minna en svefnloftið mitt gamla og góða á vesturgötunni.  En tækin er fyrsta flokks. Sömu og er í Laugum segir Stefán Bogi. Veit ekki við hverju ég bjóst en ég bjóst við einhverju lélegra...það er alveg á hreinu.

Nr. 2  Ég kom sjálfri mér á óvart á hlaupabrettinu. Greinilegt að smá labb og blak hefur heil mikið að segja þar sem ég hef aldrei hlaupið eins auðveldlega svona í fyrsta skiptið eftir langt hlé. Hljóp meira að segja á 12 í alveg eina og hálfa mín (skrifa mín af því að ég nenni ekki að hugsa hvort að það sé ú eða ó...sjá fyrri færslu....). Þetta var sko skemmtilegt surprise og ég nokkuð sátt við mína.

 Nr. 3  Var ekki alveg jafn sátt þegar ég viktaði mig á leiðinni út. Kom mér á óvart hvað mér hefur tekist að þyngjast á ca. tveimur árum. Og ekki var ég nú létt fyrir. Ef svona heldur áfram þá verð ég á forsíðunni á Vikunni eftir nokkur ár að segja frá magaminnkunaraðgerðinni minni. Myndir frá þessum tíma og næstu árum munu príða greinina sem og myndir af mér í þröngum fötum með professional sminki og öllu sem til þarf til að gera hrukkótt andlit mitt nógu fallegt fyrir forsíðuna. Ekki alveg það sem mig langar mest til.

Þannig að þetta var mjög fróðleg ferð í ræktina. Tókst meira að segja að lækka gjaldið sem Stefán Bogi þurfti að borga fyrir árskortið sitt....gott að eiga góða konu Wink Núna er ég því að leita mér af svona fjarþjálfa sem getur sett upp fyrir mig æfingarprógramm og sagt mér hvað ég eigi að borða. Viðkomandi þarf að hafa þannig matarprógramm að ekkert er bannað en ýmislegt óæskilegt. Held að það gæti virkað. Við Stefán virkum nefninlega ekki eins. Ég þoli ekki þegar ég "má" ekki borða eitthvað....hlít að geta ráðið því sjálf.

Tek það fram að ég fór ekki í ræktina í gær af því að ég fór í blak. Sem er ekki frásögum færandi nema fyrir það að Stefán var með bílinn á Reyðarfirði og því fór ég gangandi í æfinguna. Það finnst mér magnað.....


Uppstúfur.

oooohhhhh

Ekkert bootcamp á egilsstöðum af því að það voru bara 10 sem skráðu sig. Ljótu gráðugu bútkamparar. Skil ekki af hverju þeir þurfa 400 þúsund til þess að halda eitt sex vikna námskeið. Ætla að skrifa það á græðgi af því að ég er svekkt.

Núna verð ég að gera þetta sjálf og ég kann ekki að vera eins vond við sjálfa mig og aðrir geta verið. Damn.

Mér finnst skrítið að borða hangikjöt ekki með jafningi/uppstúf. Ekkert vont....en tómlegt og skrítið !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband