Páskar óseven

Þá er þessu líka yndælis fimm daga fríi lokið og núna hefst tímabil fjögurra daga vinnuviknanna. Ég man að það tók mig nokkrar vikur í fyrra að venjast því aftur að vinna fimm daga vikunnar. Skondið, vona að það verði ekki svoleiðis í ár. Páskarnir voru sem sagt mjög indælir. Setti Kústinn minn í pössun og fór með foreldrum og systrum í sumarbústað í Brekkuskógi. Þar var sofið, spilað, horft á Lord of the rings (allar myndirnar), borðað, farið í göngutúra, legið í pottinum, litað og leikið sér. Sem sagt, very nice. Þurfti nú alveg eiginlega á því að halda. Við fórum til dæmis í göngutúr sem hefði átt að taka ca. 30-45 mínútur, en þar sem við villtumst aðeins og fórum eftir einhverju korti sem var klárlega úrellt þá tók það okkur einhvern einn og hálfan tíma að komast á leiðarenda og til baka. En það var allt í lagi, gott að byrja að æfa sig fyrir gönguna miklu í sumar.

Ég endaði svo páskafríið á því að fara á tónleikana sem henni Björk. Alveg ágætis tónleikar. Spes kona hún Björk en það var allt í lagi, vissi það svosem fyrirfram. Ég fékk ágætis áminningu um það af hverju ég vil alltaf vera komin snemma á svona mannmarga viðburði. Ég þurfti semsagt að bíða í röð í ca hálftíma þar sem ég þurfti að sækja miðann minn í miðasöluna. Um það bil tíu mínútur af þeim tíma stóð ég í ágætis rigningardembu. Á þessum tíma fékk maður að sjá hvaða "fræga fólk" er merkilegt með sig og hverjir eru það ekki. Helgi Björnsson nokkur tróð sér til dæmis fremst í röðina til að  þurfa ekki að bíða með "almúganum". Tvö mínusstig fyrir hann. Sjón heilsaði uppá einhvern fyrir framan mig og ég hélt að hann myndi troðast en neibbs, hann fór aftast í röðina, tvö stig fyrir hann. Sigtryggur Baldursson, var fyrir aftan mig að spjalla og endaði einhvernvegin fyrir framan mig, tvö mínusstig fyrir hann. Held að það hafi nú ekki fleiri troðið sér fyrir framan mig, en það voru nú örugglega einhverjir fleiri "famous people" sem notuðu sér litlu frægðina sína. Svo sá ég nú nokkur þekkt andlit sem voru ekki alveg á því að bíða í röðinni en hikuðu aðeins við það að troða sér, biðu eftir að einhver træði sér fyrir það !! Mér finnst nú að það ætti bara að vera sér inngangur fyrir svona fólk sem getur ekki farið í röð. En kannski vill fræga fólkið ekki nota svoleiðis, þá sér nefninlega enginn hvað það er frægt!!!

Annars þá spilaði einhver bresk hljómsveit á eftir Björk sem heitir Hot Chip. Ég get ekki sagt að ég sé mjög hrifin af þessari tegund tónlistar, þeir spila svona danstónlist. En ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með fólkinu á staðnum. Ég átti svo ekki heima þarna að það var ekki fyndið. Það var stelpa fyrir framan mig sem dansaði í stíl við þessa tónlist. Ég horfði meira á hana heldur en á hljómsveitina, hún dansaði svo skemmtilega. Ef ég reyni að dansa svona þá lít ég út eins og ...jah, spasstískur ormur er það fyrsta sem mér dettur í hug !!!

Ein pæling í lokin, hvað er málið með að fólk í bíómyndum drekki vínglas og keyri svo í burtu!!! Ekki skrítið að almenningsálitið sé á þann veg að það sé í lagi að fá sér einn og keyra svo af stað !!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband