Fiskur

Ég var að vinna í kvöld og ég eldaði fisk. Ætlaði að gera fínan ofnfisk sem ég fann upp í vinnu í síðustu viku. Mér fannst hann líta undarlega út tilætlaðan tíma. Ákvað að smakka hann. Þá var þetta bara saltfiskur... engin furða að þetta var skrítið...og saltfiskur er ekki við hæfi í svona fisk í ofni rétt !!! GetLost

Penisilín, pensilín!!

Ég hef ekkert merkilegt að segja. Lífið heldur áfram sinn vanagang, hvort sem ég ýti á eftir því eða ekki. Ég er með sýkingu í litlu tánni minni. Það er ekki gott, mig klæjar og svíður. Fór til læknis og fékk sýklalyf. Ekki gamana að vera með pensilín ofnæmi þegar mann vantar sýklalyf. Læknirinn lýsti þessu líka stórgóða og merkilega lyfi sem ég átti að fá. Spurði svo óvart hvort ég væri með ofnæmi fyrir einhverju. Þá mundi ég það allt í einu (frekar mikilvægt þegar um er að ræða sýklalyf) að ég væri með ofnæmi fyrir pensilíni. Þá þurfti hún að leita í bókinni sinni af einhverju sem ekki var með pensilíni. Mér fannst allt í einu eins og ég væri að fá annars flokks vöru. Bú!

Núna er ég að leita af ofnæmislækni til að athuga hvort að ég sé ennþá með þetta ofnæmi. Var nefninlega voða voða lítil þegar ég fékk pensilín síðast. Hef sem betur fer ekki verið mikið í sýklalyfjum í gegnum tíðina. En það er ekki eins auðvellt og maður myndi halda að finna svona lækni. Allir virðast vera barnalæknar... greinilega bara börn sem geta verið með ofnæmi !

Núna fara jólaauglýsingarnar að streyma inn. Ég er eiginlega farin að hlakka til. Jólin eru nefninlega svo yndislegur tími. Ef maður er ekki að deyja úr stressi eða peningaáhyggjum eða einhverju svoleiðis leiðindarríi. Við förum til Kaupmannahafnar aðra helgina í desember. Ég vona að við getum farið í tívolíið í myrkrinu og séð jólaljósin. Ég er farin að hlakka svaka mikið til þar sem við erum að gista á fínu fimm stjörnu hóteli. Hef aldrei gist á svona fínu hóteli áður. Gaman gaman. Margt skemmtilegt í stjörnunum hjá okkur í desember InLove


Útvarp

Stundum held ég að útvarpið tali við mig. Þegar ég var að prufukeyra Poloinn minn þá kom lag með Sítamóral í útvarpið. Þá vissi ég sko að þetta væri bíllinn fyrir mig. Enda reyndist hann mér vel á meðan hann lifði.

Síðustu tvo daga hef ég verið að hlusta á lagið Þrek og tár, sungið af Hauk eða Bubba Morthens. Ótrúlega fallegt lag og textinn alveg æðislegur, fallegur en líka mjög sorglegur. Mér þykir líka sérstaklega vænt um lagið þar sem þetta var uppáhalds lagið hennar ömmu og Haukur var uppáhalds söngvarinn hennar. Lagið var svo sungið í jarðarförinni hennar fyrir sex árum. Ég var að hugsa mikið til ömmu í gær þegar ég var að hlusta á lagið og hvað ég saknaði nú gömlu kellingarinnar. Margt sem mig langaði til að vita meira sem ég hafi ekki hvorki aldur til né vit á að spyrja um. Lagið fékk mig til að hugsa um það þar sem ég held að amma hafi séð sjálfa sig svolítið sem persónuna í laginu. Tengingin við útvarpið....var í vinnunni í morgun að hlusta á Rás 2 (rás sem ég hlusta nánast aldrei á og rásin sem amma hlustaði alltaf á) þegar Þrek og Tár með Bubba er spilað.....held að amma hafi verið að heilsa mér Joyful

ÞREK OG TÁR

Viltu með mér vaka er blómin sofa
vina mín og ganga suður að tjörn.
Þar í laut við lágan eigum kofa.
Lékum við þar okkur saman börn.
Þar við gættum fjár um fölvar nætur
fallegt var þar út við hólinn minn.
Hvort er sem mér sýnist að þú grætur.
Seg mér hví er dapur hugur þinn.

Hví ég græt og burt er æskan bjarta
bernsku minnar dáin sérhver rós.
Það er sárt í sínu unga hjarta
að sjá hve slokkna öll þín skærstu ljós.
Ó hve fegin vildi ég verða aftur
vorsins barn og hérna leika mér.
Nú er lamað þrek mitt, þrotinn kraftur
þunga sorg á herðum mér ég ber.

Hvað þá gráta gamla æsku drauma,
gamla drauma bara ór og tár.
Láttu þrekið þrífa stýristauma.
Það er hægt að kljúfa lífsins ár.
Kemur ekki vor að liðnum vetri?
Vakni ei nýjar rósir sumar hvert?
Voru hinar fyrri fegri betri?
Feld'ei tár en glöð og hugrökk vert.

Þú átt gott þú þekkir ekki sárin,
þekkir ei né skilur hjartans mál.
Þrek er gull en gull eru líka tárin,
guðleg svölun hverri þreyttri sál.
Stundum þeim er þrekið brýnt og kraftur
þögul höfuð féllu tár um kinn.
En sama rósin sprettur aldrei aftur,
þótt önnur fegri skreyti veginn þinn.

Texti: Guðmundur Guðmundsson


Kústur

Þar sem ég hef bloggað mikið um kisann minn undandarið þá ætla ég bara að halda því áfram. Það er nefninlega einhver vondur grábröndóttur fressköttur sem leggur Kústinn minn í einelti. Held að hann ráðist á Kúst þegar Kústur er að verja heimilið sitt og matinn sinn. Held að aumingja Kústurinn minn tapi alltaf þar sem það er oft búið að éta allan matinn. Á sunnudaginn þegar ég kom heim þá var kisinn minn aumingjalegur. Hann hvæssti á mig þegar ég tók hann upp og vældi þegar ég kom við hann á ákveðnum stöðum. Ég var að vona að hann væri kannski bara marinn eins og hann virtist vera í síðustu viku þegar hann var að slást en hann var ekkert skárri í gær. Þannig að ég fór með hann til dýralæknis. Þar fann dýralæknirinn tvö bit og hann er líklegast með sýkingu þar sem hann var með hita (eyrun hans voru svo heit...sniðugt). Þannig að það var potað í hann og hann fékk tvær sprautur, eiginlega þrjár þar sem sama efninu var sprautað í hann tvisvar. Sýklalyf og bólgueyðandi+verkjastillandi. Honum leið nú sem betur fer betur við það. Núna þarf ég að vera voða vond við hann í fimm daga þar sem ég þarf að neyða ofaní hann sýklalyfjum. OG ég er rosa upptekin þessa vikuna í vinnu svo ég get ekki knúsað sjúklinginn eins mikið og ég vildi.

Það er erfitt að vera kisumamma Pouty

Til hamingju með afmælið Stefán Bogi InLoveKissing


Það er til disney kisu karakter sem heitir Oliver

Amma mín hefði átt afmæli í gær ef hún hefði ekki tekið uppá því að deyja. Mér finnst gaman að muna eftir þessum degi af því að þá fæ ég blóm. Ég tími nefninlega ekki að kaupa blómvönd og setja hann allan í kirkjugarðinn þar sem fáir og bara einhverjir fá að njóta hans. Ég kaupi frekar rósarvönd, tek eina til tvær rósir úr honum og fer með í kirkjugarðinn. Afgangurinn er svo í vasa hjá mér. Mér finnst það kósí, ömmublóm.

Við skötuhjúin fórum í bæinn í gærkvöldi. Kíktum inn á Ólíver. Ég á mjög erfitt með að ákveða hvað mér finnst um þann stað. Ástæðan fyrir að mér líkar við hann er tónlistin. Nógu gelgjuleg til að ég hafi gaman af því að dansa við hana. Verst að þessi tónlist virðist draga til sín fólk sem ég fíla ekki. Þegar við komum á staðinn var röð. Við biðum þar í svona korter tuttugu mínútur. Ef að ósýnilega "VIP" röðin hefði ekki verið þarna þá hefði þetta tekið 5-10 mínútur. Hvaða fólk er svona merkilegt að það getur ekki beðið í 5-10 mmínútur ?? Enginn !!! Þetta voru alveg jafn miklir nóboddís og ég. Ok einn sjúskaður fyrrverandi landliðsmaður í handbolta. Og ég reikna með að síma Jesú hafi líka ekki þurft að fara í röð. Mér fannst hann geðveikt flottur þegar hann kom inn. Held samt að það hafi aðallega verið af því að hann kom mér á óvart. Svo missti ég áhugann. Ég er nefninlega með ofnæmi fyrir plebbum og plebbisma. Ég get ekki skilgreint það betur. Merkilegt hvað Stefán þekkti samt mikið af fólki þarna inni !!!

Til hamingju með afmælið Elín LoL


RÚV

Kústur vakti mig á sunnudagsmorgun með því að ýta með loppunni á nefið á mér. Ákaflega skondin leið til að vakna.

Rúv fann okkur í gær. Ég var ein heima um átta leitið þegar hann Árni (!) bankar uppá. Spyr mig hvort að Stefán Bogi sé heima. Nei segi ég. Hann var semsagt að athuga hvort að við værum með sjónvarp "í láni"... góður. Ég á náttúrulega sjónvarp en það var skráð á pabba á sínum tíma þar sem ég bjó hjá þeim. Maður þarf heldur ekki að borga mörg afnotagjöld af sjónvörpum á sama heimilinu. En svo kom hann Árni og fann sjónvarpið okkar. Hann spurðu hver ætti sjónvarpið og ég sagði að ég ætti það. Hann skrifaði nafnið mitt og lögheimilisfang. Ég beið eftir að hann væri búinn að því, þá sagði ég honum að sjónvarpið væri ekki skráð á mig...HAHA.  En nú þarf ég að fara að borga afnotagjöld....meeeennn. Hélt að svona njósnarar væru bara í Andrési Önd Bandit


Kústurinn minn er vitlaus!

Sko, Stefán Bogi var að þvælast eitthvað á Grundarfjörð í gær og var þar í nótt. Þegar ég er ein heima á næturnar þá hef ég yfirleitt opið fram úr svefnherberginu. Ég geri það af því að mér finnst voða kósí að hafa Kúst uppi í rúmmi hjá mér þær nætur (annars sefur hann alltaf í stofunni). "Tilgangurinn" með að fá sér kött var meðal annars að ég hefði kompaní þegar Stefán er ekki heima. Nema hvað að hann yrti ekki í mig í allt gærkvöld, jafnvel þótt ég bæði hann ítrekað að koma og kúra hjá mér. Hann kom ekki einu sinni þegar ég fór upp í rúm að sofa. Hann komst ekki í knúsustuð fyrr en korter í sjö í morgun...þegar það voru tíu mínútur í það að ég átti að fara á fætur !!! Vittleysingur...GetLost

Erfitt haust

Eruð þið ekki að grínast með ástandið í umönnunar heiminum í dag ??? Ég hef aldrei séð þetta eins svart og núna í sambandi við mönnun á vinunni. Við erum að verða það fá að við þurfum að fara að hafa fólk heima til að geta sinnt hinum. Það liggja engar umsóknir fyrir og ef það koma einhverjar þá fáum við ekki það starfsfólk nema það biðji sérstaklega um dagvinnu, þar sem skrifstofan þarf að láta sambýlin ganga fyrir bara til að geta haldið þeim opnum. Skólar, leikskólar, frístundarheimili, sambýli, störf með fötluðum, hjúkrunarheimili, sjúkrahús, elliheimili. Allt gefandi störf sem gaman er að vinna þegar nóg er af fólki, ömurleg í manneklu. Og núna er orðið mannekla ekki notað þegar vantar einn til tvo starfsmenn. Mannekla er notað þegar það vantar 40-50% af starfsfólki. Sem er staðan á mörgum sambýlum í dag OG...í vinnunni minni.

Staðan í vinnunni gerir það að verkum að ég er þreytt og stundum pirruð eftir vinnu. Geri ekki mikið en samt helling. Fór á tónleika með hljómsveitinni Hraun síðasta miðvikudag. Mér finnst þeir skemmtilegir. Þegar ég horfi á hljómsveitir spila vel ég mér oft einhvern einn til að vera skotiní í bandinu. Ég valdi mér einn í Hraun og dundaði mér við að horfa á hann. Svo er ein í vinnunni minni sem kannast við hann og segir mér að ég eigi ekki að vera skotin í honum. Hann sé ekkert merkilegur pappír. Oh, bömmer. Þoli ekki þegar ég vel vitlaust. Allt í lagi. Búin að velja mér annan sem er miklu normalaðri. Annars þá þoli ég almennt ekki þegar ég vel vitlaust. Ég verð alveg rosalega pirruð á sjálfri mér og eiginlega hálf sár út í mig líka. Veit ekkert af hverju. Er greinilega ekki dugleg í að fyrirgefa sjálfri mér mistök sem ég geri. Heeeyyyy, kannski þess vegna sem mér finnst erfitt að segja fyrirgefðu við aðra....

myspace er plebbalegt...allir að fá sér facebook


Helgin

Ég er hjá mömmu að bíða eftir að þvottavélin klári að þvo þvottinn minn. Kunni ekki við það að þvo uppi hjá mér í dag þar sem húsmóðirin hélt upp á sjötugs afmælið sitt í dag. Hálf asnalegt að ég sé þá alltaf að koma þarna með óhreina þvottinn minn að þvo. Annars var ég að fara að byrja að blogga hérna rétt áðan þegar ég heyri einhver geðveik læti. Það var svona hjóð í bíl að spóla og svo komu bara sprengingar. Þessi hávaði var búinn að vera í svolítla stund með köflum þegar ég varð of forvitin og hljóp hérna niður á mýrargötu til að athuga hvað var í gangi. Þá var löggan mætt á staðinn og var að handtaka einhvern blindfullan pólverja sem var að reyna að keyra bílinn sinn. Bíllinn var ónýtur að framan, sprungið á báðum framdekkjum og pústið farið. Það voru semsagt lætin. Hann hefur væntanlega verið ný búinn að klessa bílinn einhverstaðar og haldið bara áfram á bílnum sem var nú samt klárlega óökufær. Magnað.

Ég fór á tónleika hjá Franz Ferdinand á föstudaginn. Ógisslega gaman. Þeir eru alveg svaðalega flottir. Í gær var svo afmæli hjá Sólveigu. Til hamingju með daginn í gær Sólveig...og takk fyrir að gefa mér að borða..ég var orðin svöng Wink

Í dag fórum við svo í heimsókn til tengdó. Mér var boðið kaffi en sagðist bara kunna að drekka latte með karamellu sýrópi. Mágkona mín og tengdómamma fóru þá að malla saman latte fyrir mig, þó að ég segði að það væri nú alger óþarfi. Mjólk var hituð í örbylgjuofninum og hún svo þeytt í einhverri  þeytingargræju sem til var á heimilinu. Því  næst var vanillu sykri og sýrópi hellt í glasið og þá venjulegu kaffi á eftir. Mjög skemmtilega samsett og alveg sæmilegt á bragðið. Við vorum ennþá í heimsókn klukkutíma seinna þegar hún kemur með annan bolla og vildi endilega að ég prófaði hann, hann væri örugglega betri en sá síðasti þar sem núna var notað pressukönnu kaffi en ekki uppáhellingur. Heiðdís átti greinilega að drekka kaffi Tounge

Það var svo ekki skemmtileg aðkoman að stofunni  þegar við komum heim. Á gólfinu lá dauður smáfugl og fjaðrir út um allt gólf. Kötturinn var ekki vinsæll á þeirri stundu og á hann var hengd bjalla sem hafði beðið úti í bíl í tvo mánuði þar sem mín gleymdi henni alltaf þar! Hann virtist ekki vera neitt sérstaklega ánægður með þessa viðbót á ólina sína. En þetta er refsingin sem kettir fá fyrir að veiða fugla á mínu heimili !!!


krapp

Reunionið var svo skemmtilegt. Talaði við fólk sem ég talaði ekki einu sinni við í Kvennó! Magnað. En það var rosalega gaman að hitta þetta fólk aftur. Vonandi getum við hittst aftur sem fyrst, gaman gaman. Fullt af fólki komið með börn og hús og maka og allt saman en ennþá fullt af fólki að læra hitt og þetta í útlöndum.

Var að hugsa um að fá áhuga á rándýru hobbíi sem heitir á útlenskunni scrap booking eða minningabækur á íslenskunni. Veit samt ekki hvort að þetta sé fyrir mig þannig að ég var að hugsa um að fara á námskeið eina kvöldstund til að prófa. Hérna getiði séð hvað scrap er. Það er námskeið 24.september frá 19-21:30 og kostar 3500 krónur. Langar einhvern með mér ??? Haldið í Föndru !!

Að lokum vil ég þakka Elínu fyrir að kommenta reglulega InLove


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband